27 Nóvember 2017 22:39

Í málaskrá Lögreglunnar á Austurlandi eru skráð 133 mál. Flest verkefni lögreglunnar snúa að aðstoð við borgarana vegna veðurs og ófærðar. Eins og ekki hefur farið framhjá landsmönnum öllum var afar slæmt veður hér á Austurlandi sem og víðar á landinu. Mikið hvassviðri gekk yfir með mikilli snjókomu sem varð til þess að færð spilltist.

Ökumenn þurftu víða að yfirgefa bíla sína og höfðu björgunarsveitir í mörg horn að líta á tímabili.

Alls bárust 20 beiðnir til lögreglu um aðstoð vegna færðar þar sem ökumenn höfðu lent í vandræðum. Engin slys eða alvarlög óhöpp urðu en 7 umferðaróhöpp urðu á tímabilinu og einhver slys urðu í þremur þeirra.

Umferðaróhapp varð á nýjum gatnamótum Norðfjarðarvegar og Eskifjarðarvegar 18. nóvember einungis viku eftir að ný Norðfjarðargöng voru opnuð. Þar skullu saman tveir jepplingar. Einungis ökumenn voru í bifreiðunum og var ökumaður annars þeirra fluttur á Sjúkrahúsið í Neskaupstað til aðhlynningar. Áreksturinn varð nokkur harður og voru báðar bifreiðarnar fluttar óökufærar af vettvangi.

Þann 22. nóvember var rútubifreið ekið aftan á snjóruðningstæki í Víðidal. Í rútunni voru 25 farþegar auk ökumanns. Mjög vont veður var á vettvangi þegar óhappið varð og komu björgunarsveitir víða að til aðstoðar. Sjúkraflutningabíl var ekið útaf á leiðinni á vettvang en enginn slasaðist alvarlega í óhappinu en einhverjir voru sárir eftir óhappið. Allir voru fluttir til Egilsstaða og fengu skoðun á Heilsugæslunni á Egilsstöðum. Eftir skoðun var öllum komið í fjöldahjálparstöð í Grunnskólanum á Egilsstöðum.

Þann sama dag fauk póstbíllinn útaf í Fáskrúðsfirði, ökumaður sem var einn í bílnum sakaði ekki.

Einn ökumaður var stöðvaður en hann hafði verið svipur ökuréttindum nokkru áður og gat ekki framvísað ökuskírteini vegna þess. Enginn ökumaður var stöðvaður fyrir að aka of hratt enda aðstæður til hraðaksturs með versta móti þessa daga.

Það er mikilvægt fyrir ökumenn að fara gætilega í þeirri vetrarfærð sem er þessa dagana og huga vel að búnaði bifreiða sinna, gæta að því að ljós séu í lagi og hreinsi snjó af bílum og skafi rúður og gæti að því að snjór skermi ekki ljós. Gæta þarf líka að því að bílum sé lagt rétt og standi ekki langt útí götu svo hægt sé að hreinsa snjó af götum.

Einnig hefur borið á því að snjósleðum sé ekið innanbæjar en það er ekki heimilt samkvæmt umferðarlögum.