17 Ágúst 2015 09:04

Snemma á sunnudagsmorgun mældu lögreglumenn bifreið á 130 km hraða á Suðurlandsvegi undir Ingólfsfjalli.  Ökumanni, ungum karlmanni á austurleið, var gefið stöðvunarmerki.  Hann hundsaði það og hélt ferð sinn áfram.  Lögreglumenn í eftirliti á Selfossi náðu að stöðva hann á Ölfusárbrú.  Ökumaðurinn reyndist undir áfengisáhrifum, hafði aldrei tekið bílpróf og var á stolinni bifreið.  Hann var handtekinn og færður í fangageymslu.  Ökumaðurinn var látinn laus síðar um daginn að lokinni yfirheyrslu þar sem hann gekkst við brotunum.

Tveir karlmenn og kona voru handtekin skömmu eftir hádegi á fimmtudag í tengslum við  þjófnaði á tjaldsvæði Gesthúsa  á Selfossi.  Karlmennirnir hafa margoft komið við sögu lögreglu vegna þjófnaða og annara brota.  Við húsleit á dvalarstað þeirra fundust ýmsir munir sem glöggir lögreglumenn könnuðst við úr innbrotum.  Fólkið stundaði það meðal annars að fara um tjaldsvæði og stela hlutum sem fólk geymdi utan við tjöld sín.  Að loknum yfirheyrslum var fólkið látið laust.

Á tímabilinu 12. júlí til 11. ágúst hurfu 43 girðingastaurar frá hesthúsi við Norðurtröð 24 á Selfossi.  Þetta voru galvaniseruð rör 60 mm í þvermál og 180 sm á lengd.  Verðmæti um 100 þúsund krónur.  Þeir sem veitt geta upplýsingar um hvarf girðingastauranna vinsamlegast hafið samband við lögregluna á Suðurlandi í síma 444 1010.

Samsung 40 tommu flatskjá, verkfærum og áfengi var stolið úr sumarbústað í Úthlíð á tímabilinu 9. til 16. ágúst síðastliðinn.  Brotist var inn í bústaðinn, sem er við Hellisgötu, með því að spenna upp glugga.  Engar vísbendingar eru um hver var að verki en upplýsingum er hægt að koma til lögreglu í síma 444 1010.

Ökumaður slasaðist minni háttar í bílveltu í Kömbum síðastliðið fimmtudagskvöld.  Talið er að ökumaður hafi misst stjórn á bifreiðinni sem fór útaf veginum og valt tvær til þrjár veltur.

Um helgina voru 42 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur.  Langflestir á starfssvæði lögreglu í Vík og á Kirkjubæjarklaustri.  Einn ökumaður var kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og annar fyrir ölvunarakstur.  Þá var maður kærður fyrir að fela ölvuðum manni að aka bifreið.