4 Janúar 2016 10:05

Lögreglumenn stöðvuðu akstur bifreiðar í Hveragerði í gærkvöldi. Í bifreiðinni var par sem sýnilega var undir áhrifum fíkniefna.  Við leið á þeim fundust kannabisefni.  Fólkið var handtekið og það fært í lögreglustöð.  Þar kom í ljós að bifreiðinni hafði verið stolið á höfuðborgarsvæðinu og búið að setja á hana önnur skráningarmerki en áttu að vera á henni.  Parið dvelur í fangageymslu á meðan frekari rannsókn fer fram.

Sjö kannabisplöntur fundust við húsleit hjá karlmanni á Selfossi nú fyrir áramót. Hann var yfirheyrður um sakarefnið.  Hann viðurkenndi að eiga plönturnar.  Plönturnar verða sendar á efnarannsóknarstofu þar sem styrkur kannabisefna verður mældur.

Aðfaranótt gamlársdags voru lögreglumenn á Höfn kallaðir út vegna ölvaðs manns sem var til vandræða inni á heimili þar sem hann hafði ráðist á konu og veitt henni minni háttar áverka. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa.  Málið er í rannsókn.

Kona kom á lögreglustöðina á Selfossi til að leggja fram kæru á hendur karlmanni sem réðist á hana inni á skemmtistað á Selfossi. Málið er í rannsókn en konan leitaði til læknis en áverkar reyndust minni háttar.

Brotist var inn í Samkaup á Selfossi að kvöldi gamlársdags. Svo vildi til að starfsmaður var við þrif í versluninni svo brotamaðurinn lagði á flótta.  Nýfallinn snjór var á jörðu svo auðvelt var að rekja slóð mannsins þar sem hann dvaldi.  Maðurinn reyndist ölvaður og var handtekinn og færður í fangaklefa þar sem hann svaf úr sér vímuna.  Við yfirheyrslu bar hann við minnisleysi en neitaði ekki sök.

Þrír ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og einn fyrir ölvunarakstur.

Þrír umráðamenn ökutækja voru kærðir fyrir að hafa vanrækt að vera með ökutæki sín vátryggð. Einn þeirra hafði lent í því að velta bifreið sinni á Eyrarbakkavegi.