7 Desember 2015 10:29

Verkefni lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku mörkuðust að miklu leyti af óveðrinu sem gekk yfir landið.  Búið var í haginn og allir í viðbragðsstöðu.  Vegum var lokað í tíma og fólk tók tillit til viðvarana.  Nokkur slys urðu í vikunni sem tengdust snjókomu sem var talsverð.

Maður slasaðist á baki í gærmorgun er hann var við snjómokstur í Hagalandi á Selfossi.  Moksturstækið rakst í eitthvað fast með þeim afleiðingum að stjórnandinn kastaðist til inni í vélinni.  Mikil ófærð var á svæðinu og þurfti að kalla til moksturstæki til að aðstoða við að komast að slysstaðnum.  Það tók tæpa klukkustund þar til sérbúinn björgunarsveitarbíll, sem hafði verið útbúinn til sjúkraflutninga, komst að vinnuvélinni sem sá slasaði var í.  Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Selfossi þar sem hann tekinn til rannsóknar.

Kona slasaðist á höfði þegar snjóhengja féll yfir hana af þaki íbúðarhúss.  Konan var flutt með sjúkrabifreið á heilsugæslustöðina á Hellu þar sem gert var að sári hennar.  Atvikið átti sér stað á sveitabæ í Rangárþingi.  Þetta atvik minnir á að aðgæslu er þörf þar sem snjór hefur safnast saman á húsþökum og eins eru grýlukertin varasöm.

Harður árekstur varð á Suðurlandsvegi í Hveradalabrekku á fimmtudag.  Ökumaður, sem grunaður er um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna, ók aftan á kyrrstæða bifreið sem hafði bilað rétt áður.  Ökumaður þeirrar bifreiðar sat í bifreiðinni, að bíða eftir aðstoð, þegar áreksturinn varð.  Hann var fluttur á heilsugæsluna á Selfossi til skoðunnar en var ekki talinn alvarlega slasaður.  Bæði ökutækin voru óökufær eftir áreksturinn.

Á fimmtudagsmorgun var bifreið ekið aftan á aðra á Suðurlandsvegi á móts við Stórólfsvelli við Hvolsvöll.  Éljagangur var og hálka þegar óhappið varð.  Ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á hafði dregið úr hraða þar sem hann ætlaði að beygja inn á afleggjara að Stórólfsvöllum.  Ökumaður hinnar bifreiðarinnar náði ekki að stöðva og lenti aftan á hinni bifreiðinni.  Mikilvægt er að gæta að því að hafa nægilegt bil á milli ökutækja og ekki hvað síst við aðstæður eins og þarna voru.  Þá hvílir sú kvöð á þeim sem ætla að draga úr ferð að gera það þannig að það valdi ekki óþægindum fyrir þá sem á eftir eru.

Sautján ára drengur er talinn hafa rifbeinsbrotnað þegar hann kastaðist af snjóþotu sem var dregin af bíl á Selfossi síðastliðinn miðvikudag.  Ökumaður bílsins ók frá Hagalæk yfir Eyraveg, sem er umferðarmikil gata,  áfram austur Suðurhóla.  Tveir drengir voru á snjóþotunni.  Á móts við Gagnheiði fór sjnóþotan yfir snjóruðning og við það köstuðust drengirnir tveir af henni með fyrrgreindum afleiðingum.  Ökumaðurinn var kærður fyrir umferðarlagabrot.