7 Mars 2016 10:19

Mikill viðbúnaður var vegna reyks sem kom upp á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri um klukkan sex á fimmtudagsmorgun.  Slökkvilið og aðrar bjargir voru ræstar út.  Hafist var handa við að rýma þá álmu heimilisins sem reykurinn var í.  Enginn eldur var sjáanlegur.  Við nánari skoðun kom í ljós að rafmagnsofn undir glugga var stilltur á yfir 30°C og í gluggakistu var kerti sem hafði bráðnað við hitann og vaxið lekið niður á ofninn og af því varð talsverður reykur.  Öll viðbrögð og aðgerðir á staðnum gengu fumlaust fyrir sig.  Engum varð meint af og ekkert tjón að heitið gæti.

Um hádegi í gær féll tveggja ára gamalt barn úr stiga upp á svefnloft í sumarbústað í Fljótshlíð.  Talið er að fallið hafi verið rúmur metri.  Barnið hlaut höfuðáverka og þótt rétt að kalla til þyrlu Landhelgisgæslunnar til að flytja barnið á slysadeild Landspítalans.  Upplýsingar um líðan barnsins liggja ekki fyrir á þessari stundu.

Umferðareftirlitslögreglumenn sem voru á fimmtudag að vigta vörubifreiðar grunuðu farþega einnar vörubifreiðarinnar að vera með fíkniefni.  Við leit á farþeganum fundust nokkrir skammtar af kannabis.

Í hádeginu á þriðjudag varð harður árekstur á gatnamótum Suðurlandsvegar og Biskupstungnabrautar.  Ökumaður annarar bifreiðarinnar sýndi merki um að vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna.  Hann var handtekinn og færður í lögreglustöð til blóðsýnatöku.  Við leit í bifreið hans fannst vasaljós sem við nánari skoðun reyndist búið rafskautum og hægt að nota sem rafbyssu.  Maðurinn verður kærður fyrir brot á vopnalögum og fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefnum.

Tvö heimilisofbeldismál komu upp í síðustu viku sem leiddu til þess að lögreglustjóri ákvarðaði um nálgunarbann.

Erlend kona hlaut opið beinbrot á úlnlið við fall í hálku við Gullfoss og önnur erlend kona úlnliðsbrotnaði við Jökulsárlón.

Lögregla var kölluð til í þrettán umferðaróhöpp í vikunni.  Engin alvarleg slys urðu vegna þeirra en talsvert eignatjón.