7 September 2015 09:26

Maður var sleginn með flösku í höfuðið í húsi á Selfossi snemma á sunnudagsmorgun.  Vegna rannsóknar málsins var grunaður árásarmaður handtekinn þar sem hann var sofandi á heimili sínu á Selfossi.  Ekki reyndist unnt að yfirheyra árásarþolan vegna ölvunar hans.  Það liggur ekki fyrir hver aðdragandi árásarinnar var og er það í rannsókn.  Árásarþolinn hlaut skurð á höfuðið og var fluttur á heilsugæslustöð þar sem sárið var saumað saman.

Aðfaranótt föstudags réðist drukkinn maður á fólk fyrir utan skemmtistaðinn Frón á Selfossi.  Fólkið varð fyrir hnefahöggum,  Einn hlaut svo þungt högg í andlitið að flytja þurfti hann til læknis á heilsugæslunni á Selfossi.  Ekki liggur fyrir hvort maðurinn hlaut beinbrot en málið er í rannsókn.

Á föstudagsmorgun var tilkynnt um kyrrstæða bifreið við Skarfaskersbryggju í Þorlákshöfn þannig lagt að hún truflaði aðra umferð.  Í bifreiðinni var karl og kona sem ekki tókst að vekja.  Lögreglumenn fóru á staðinn. Í ljós kom að bifreiðinni hafði verið stolið og í henni voru hlutir sem grunur var um að væru stolnir.  Parið var handtekið og fært í fangageymslu og látið sofa úr sér vímu sem það var í.  Við yfirheyrslu bar karlinn við minnisleysi en hann er grunaður um að hafa stolið bifreiðinni.

Eldur kom upp í dráttarvagni við Hala í Suðursveit síðastliðiðið miðvikudagskvöld.  Vagninn var dreginn af dráttarbíl.  Bílstjóranum tókst að tengja vélavagninn frá bílnum og losa borvagn sem var á dráttarvagninum.  Ekki tókst að slökkva eldinn með tiltækum slökkvitækjum sem voru í bílnum og vegfarendur lögðu til.  Bændur komu að með haugsugu og dældu vatni á eldinn sem var mestur í hjólbörðum vagnsins og tókst að slökkva eldinn að mestu.  Slökkvilið frá Höfn kom á staðinn og lauk við slökkvistarfið.  Talið er að eldurinn hafi komið út frá hita í hemlakerfi vagnsins eða að hjólbarði hafi orðið vindlaus og hiti myndast út frá honum.

Um hádegisbil á fimmtudag var stórri pallbifreið ekið á tvo ljósastaura við Langholt á Selfossi móts við fjölbrautaskólann.   Það stöðvaði ekki ökumanninn sem hélt áfram og ók yfir gangbrautarskylti.  Ökuferðinni lauk eftir að bifreiðin stöðvaðist á stóru tré rétt hjá.  Ökumaðurinn er grunaður um ölvun.  Margt fólk er á göngu þarna á svæðinu á þessum tíma og svo var þegar atvikið átti sér stað.  Mátti litlu muna að illa færi þar sem tvær stúlkur höfðu augnabliki áður staðið við annan ljósastaurinn að losa sig við rusl í ruslafötu sem var á staurnum.  Ökumaðurinn verður kærður fyrir umferðarlaga- og hegningarlagabrot þar sem hann er talinn hafa stofnað lífi og heilsu annara í augljósan háska.