16 Nóvember 2015 10:11

Síðdegis á þriðjudag stöðvuðu lögreglumenn Pajero jeppa við Vík í Mýrdal.  Athygli vakti hvað mikill varningur var í jeppabifreiðinni sem var á suðurleið.  Við nánari skoðun kom í ljós að um var að ræða talsvert magn af áfengi og tóbaki.  Strax vaknaði grunur um að þetta væri smyglvarningur.  Tveir menn sem voru í jeppanum voru handteknir og færðir til yfirheyrslu.  Í framhaldi var einn handtekinn á höfuðborgarsvæðinu sem talinn var að tengjast málinu.  Við yfirheyrslur viðurkenndu tveir mannanna að hafa smyglað áfenginu og tóbakinu í land á Reyðarfirði.  Lögreglan lagði hald á um 300 áfengisflöskur, um 2000 neftóbaksdósir og um 1500 sígarrettupakka.  Staða málsins er sú að verið er ganga frá því til afgreiðslu til ákærusviðs lögreglustjórans á Suðurlandi.

Flatskjá var stolið úr sumarbústað við Suðurheiðarveg í Grímsnesi á tímabiliinu frá 16. október til 13. nóvember síðastliðinn.  Eigendur bústaðarins höfðu ekki komið í húsið í tæpan mánuð.  Málið er óupplýst.

Tvö fíkniefnamál komu upp í síðustu viku.  Ökumaður sem var stöðvaður á Eyrarbakkavegi hafði í fórum sínum fjórar jónur og eina kúlu af hvítu dufti.  Auk þess var hann grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.  Í Þorlákshöfn voru höfð afskipti af konu  vegna gruns um að hún hefði í vörslum sínum fíkniefni.  Við leit fundust hjá henni um 3 grömm af kannabis ásamt neyslutólum.

Mikið álag hefur verið á lögreglunni á Suðurlandi undanfarna daga vegna fjölda umferðaróhappa í kjölfar mikillrar hálku á vegum einkum í uppsveitum Árnes- og Rangárvallasýslu.  Skráð voru 20 óhöpp og slys en engin þó alvarleg.  Samt sem áður þarf í flestum tilvikum að kalla til lögreglu og sjúkralið og stundum um langan veg að fara.