20 Júní 2016 08:45

Í síðustu viku var lögreglan á Suðurlandi kölluð til 20 sinnum vegna slysa og umferðaróhappa í umdæminu.

Þátttakandi í hjólreiðakeppni Wow Cyclothon féll af hjóli sínu skammt austan við Djúpá á Mýrum á föstudag. Hann var fluttur til skoðunar á heilsugæslustöðinni á Höfn.  Þar kom í ljós að hann var óbrotinn en með skrámur og fann til eymsla í skrokknum.  Annar hjólreiðamaður, í sömu keppni, handleggsbrotnaði er hann féll af hjóli sínu á Suðurlandsvegi á móts við Ásmundarstaði í Rangárþingi.

Um hádegi á föstudag varð harður árekstur á hringveginum við Stafafell í Lóni. Í bifreiðunum voru sjö manns, allt erlendir ferðamenn.  Einn farþegi slasaðist lítils háttar á höfði.  Ökumaður annarar bifreiðarinnar ók af hliðarvegi í veg fyrir hina bifreiðina sem var ekið eftir hringveginum.

Aðfaranótt þjóðhátíðardagsins var óskað bráðrar aðstoðar vegna manns sem gekk berserksgang í sumarbústað í uppsveitum Árnessýslu. Hann hafði skemmt húsmuni og var ógnandi gagnvart öðru fólki í húsinu.  Hann var handtekinn og færður í fangageymslu þar sem hann dvaldi þar til af honum bráði.

Kona kærði innbrot og þjófnað í íbúð sína í fjölbýlishúsi á Selfossi. Sagðist hún hafa saknað ýmsra hluta svo sem snyrtivara, fatnaði og peninga.  Ekki er vitað hver var að verki en verknaðurinn átti sér stað á tímabilinu frá hádegi síðastliðins miðvikudags til sama tíma á fimmtudag.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir ávana- og fíkniefnum, einn fyrir ölvunarakstur og 48 fyrir hraðakstur.