21 Mars 2016 08:58

Lögreglumenn á Höfn höfðu afskipti af vöruflutningabílstjóra aðfaranótt laugardags. Grunur vaknaði um að hann væri undir áhrifum ávana- eða fíkniefna.  Blóðsýni var tekið frá ökumanni sem sent verður til rannsóknar.  Í bifreiðinni fundust nokkrar plastflöskur sem innihéldu heimagert áfengi.  Hald var lagt á áfengið og  maðurinn verður kærður fyrir brot á áfengislögum og fyrir  akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna gefi niðurstaða blóðrannsóknar tilefni til þess.

Að kvöldi fimmtudags stöðvuðu lögreglumenn á Hvolsvelli ökumann dráttarvélar sem ók eftir Suðurlandsvegi með aftanívagn sem var ofhlaðinn af malarefni, vagninn óskráður, dráttarvélin ótryggð, stýris- og ljósabúnaður í ólagi og hjólbarðar á vagninum slitnir og einn alveg inn í striga. Ökumaður var kærður öll þessi brot.

Sextíu ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í síðustu viku í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Lögreglumenn umferðareftirlitsdeildar hafa verið mikið á ferðinni og í vikunni kærðu þeir 11 ökumenn fyrir of hraðan akstur og þrjá fyrir ásþungabrot.  Auk þess hafa þeir tekið þátt í umferðarátaksverkefnum.

Milli klukkan fimm og sex á fimmtudagsmorgun var brotist inn í kjallaríbúð að Háengi 4 á Selfossi og þaðan stolið tölvu og síma. Sá sem þar var að verki mun hafa spennt upp glugga og farið inn og rótað í skápum og horfið á braut með þýfið.  Tveir men sváfu í íbúðinni.  Annar þeirra vaknaði við gluggaskell.  Þegar hann reis upp varð hann þess var  að óboðinn gestur hafi verið á ferð.  Hann fór út og sá þá skugga af manni á hlaupum frá húsinu.

Helgina 12. til 14. mars síðastliðinn, líklegast aðfaranótt þess 14., var brotist inn í hesthús í hesthúsahverfinu á Hellu. Farið var inn í hnakkageymslu og tveimur hnökkum stolið.  Þeir sem veitt geta upplýsingar um þessi tvö innbrot að hafa samband við lögreglu í síma 444 2010.

Í síðustu viku var tilkynnt um sex minni háttar umferðaróhöpp og þrjú slys.