22 Febrúar 2016 10:51

Skömmu eftir hádegi á föstudag var óskað eftir lögreglu vegna manns, vopnuðum hníf, sem braut sér, heimildarlaust, inn í hús á Hellu og hafði í hótunum við fólk.  Maðurinn hvarf  síðan á braut án líkamsmeiðinga.  Leitað var aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra til að leita að manninum sem fannst í húsi í þorpinu.  Sérsveitarmenn handtóku manninn sem veitti ekki viðnám við handtökuna.   Hann var fluttur í fangageymslu á Selfossi.  Við húsleit á heimili mannsins fundust 14 lítrar af landa.  Maðurinn var kærður fyrir húsbrot, eignaspjöll, hótanir og áfengislagabrot.  Hann var látinn laus að yfirheyrslu lokinni.

Eldur kom upp í geymslu í íbúðarhúsi að Tjaldhólum á Selfossi uppúr klukkan þrjú á laugardag.  Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu réði niðurlögum eldsins sem hafði ekki náð sér á strik vegna þess að rýmið var lokað og súrefni komst ekki að  nema í takmörkuðu magni.  Talsvert tjón varð vegna sóts en minna vegna eldsins.  Grunur er um að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagnstengi.

Vinnuslys varð við Búrfellsvirkjun á miðvikudag.  Starfsmaður verktaka missti framan af fingri þegar hann varð á milli keðja sem voru notaðar til að hífa upp lóð.  Maðurinn var fluttur á Slysadeild Landspítala þar sem gert var að sárum hans.

Í síðustu viku voru 18 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur.  Flestir á þjóðvegi 1 í Rangár- og V- og A- Skaftafellssýslum.  Sá sem hraðast fór var á 137 km hraða í Eldhrauni á ísuðum vegi.  Sama dag á sömu slóðum voru nokkrir til viðbótar kærðir fyrir að fara of hratt.  Þetta er talsvert áhyggjuefni því þarna eru í mörgum tilvikum ökumenn sem ekki hafa reynslu af akstri í snjó og hálku.  Ekki er betra þegar við bætist að ökumaður er undir áhrifum áfengis eins og sá sem var mældur á 117 km hraða austan við Hvolsvöll um kvöldmatarleytið á miðvikudag.