22 Júní 2015 09:44

Mikil umferð var á Suðurlandi um helgina sem gekk vel enda ökumenn tillitsamir, glaðir og nutu greinilega lífsins.  Víða voru hátíðir þó sérstaklega í Árnessýslu.  Ekki var annað að sjá en allir skemmtu sér vel.

Á tímabilinu 13. til 20. júní var brotist inn í geymslu og geymslugám við sumarbústað í Grámosagötu í landi Snæfoksstaða í Grímsnesi. Líklegast er að þetta hafi átt sér stað aðfara nótt fimmtudagsins 18. júní.  Sá eða þeir sem þarna voru að verki höfðu á brott mikið af rafmagnsverkfærum,  útvistarfatnaðar og fleira.

Einnig var brotist inn í vinnuvél og vinnuskúr í Lambafellsnámu í Ölfusi þaðan sem var stolið verkfærum meðal annars rafsuðuvél.  Þetta hefur gerst á tímabilinu frá kvöldi þriðjudags að morgni fimmtudags í síðustu  viku eins og innbrotið í sumarbústaðinn í Grímsnesinu.  Ekki er vitað hvort þessi tvö innbrot tengist.  Innbrotin eru í rannsókn og biðlar lögreglan á Suðurlandi til allra sem veitt geta upplýsingar að koma þeim á framfæri í tölvupósti logreglan@sudurland.is.  eða í síma 444 2010.

Lögregla var kölluð til um miðjan dag á föstudag vegna lausamalar á þjóðvegi 1 austan við Hvolsvöll sem olli tjóni á ökutækjum við mætingu.  Við nánari skoðun kom í ljós að þarna hafði verið á ferð dráttarvél með aftanívagn sem fullum af möl.  Gaflinn á vagninum hafði ekki lokast og möl runnið af honum á veginn.  Ökumaður dráttarvélarinnar verður kærður fyrir að hafa ekki búið svo um farminn að ekki stæði af honum hætta.

Kona sem hafði um þar liðna helgi verslað í Kolaportinu fékk  til baka fimmþúsund króna seðil sem reyndist falsaður.  Konan áttaði sig ekki á þessu fyrr en síðar.  Til að fá fullvissu um að seðillinn væri falsaður fór hún með hann í Landsbankann á Hvolsvelli þar sem starfsemenn sannreyndu að seðillinn væri falsaður.  Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi.

Fjögur minni háttar fíkniefnamál komu upp á Selfossi um helgina sem vörðuðu vörslu og neyslu.

Ökumaður festi bíl sinn í Reynisfjöru seint á laugardagskvöld.  Hann viðurkenndi aksturinn sagðist hafa ekið niður í fjöruna til að taka ljósmyndir. Ökumaðurinn var kærður fyrir utanvegaakstur.

Sextán ára drengur slasaðist er hann dróst með hrossi sem hann hafði verið á í Reykjadal við Hveragerði.   Fótur hans festist í ístaði.  Drengurinn var fluttur á heilsugæslustöðina á Selfossi til skoðunar.  Talið er að hann hafi hlotið minni háttar áverka.

Fólksflutningabifreið valt á Laugarvatnsvegi við Böðmóðsstaði síðdegis á fimmtudag.  Sjö voru í bifreiðinni og sex þeirra hlutu minni háttar meiðsl og voru fluttir til læknisskoðunar.

Loksins hefur slegið á ökuhraðann en í síðustu viku voru 44 kærðir fyrir hraðakstur og tveir fyrir ölvunarakstur.