8 Júní 2015 12:11

Rannsókn á eldsvoða, sem varð síðdegis í gær á iðnaðarlóð í Gagnheiði á Selfossi, er á lokastigi.  Tilkynnt var um eldinn klukkan 18:33.  Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu réði niðurlögum eldsins á skömmum tíma.  Eldsmaturinn voru plaströr sem tilheyra röraverksmiðjunni Set.   Að slökkvistarfinu komu margir viðbragðsaðilar ásamt lögreglu og slökkviliði.  Má þar nefna björgunarsveitarmenn, Rauða krossinn, barnaverndaryfivöld í Árborg, fjölmiðlar og fleiri.   Allir þessir hópar unnu mjög vel saman í störfum sínum og hver tók tillit til annars.  Loka þurfti  götum og rýma 50 hús í nálægum götum.  Áætlað er að um 200 manns hafi búið á rýmingarsvæðinu.  Fjöldahjálparstöð var opnuð í Vallarskóla, þangað leituðu 25 manns.   Eldurinn kviknaði út frá fikti tveggja 9 ára gamalla drengja.  Drengirnir fundu kveikjara á víðavangi og kveiktu eld í spítnabraki á lóðinn þar sem rörin voru.  Áður höfðu þeir fundið brúsa með vökva í sem þeir helltu úr.  Líkur eru á að í brúsanum hafi verið eldfimur vökvi og það útskýri hvers vegna eldurinn magnaðist svo upp á skömmum tíma.   Barnaverndaryfirvöld í Árborg munu vinna í málum drengjana með foreldrum þeirra.  Ljóst er að þarna var um óvitaskap að ræða og drengirnir ekki áður valdið tjóni á þessu svæði né annars staðar.   Lögreglan vill koma þakklæti til almennings sem virti lokanir og gáfu viðbragðsaðilum rými til slökkvistarfsins.

 

Í liðinni viku var tilkynnt um sex slys á fólki í Rangárvallasýslu.  Kona öklabrotnaði fyrir ofan Skógafoss, önnur kona öklabrotnaði við Seljalandsfoss, á Kirkjubæ datt kona og fótbrotnaði.  Karlmaður féll af hestbaki við Stóra Hof, kona fór úr axlalið við fall í brottfararsal Herjólfs í Landeyjarhöfn.  Dregnur slasaðist á höfði eftir að hafa fallið aftur fyrir sig í Þórsmörk.  Í kjölfar þess varð það óhapp að björgunarsveitarbifreið var ekið aftan á sjúkrabifreið en bæði ökutækin voru á leið til að sinna drengnum í Þórsmörk.

 

Kæra barst vegna utanvegaaksturs á Sólheimasandi við flugvélaflak sem þar er.  Meint brot mun hafa átt sér stað um nýliðin mánaðamót.  Málið er í rannsókn.

 

Lögreglumönnum á Suðurlandi er mikið áhyggjuefni ör fjölgun umferðarlagabrota í umdæminu.  Í síðustu viku voru 154 ökumenn kærðir fyrir umferðarlagabrot.  Þar af voru 143 kærðir fyrir hraðakstur, fimm fyrir ölvunarakstur og þrír fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.  Víst er umdæmið víðfemt og umferð aukist í upphafi sumars.  Samt sem áður er þessi niðurstaða óásættanleg.  Lögreglumenn munu ekki draga af sér í því að ná niður ökuhraða og öðrum brotum í umferðinni.