8 Febrúar 2016 10:05

Föstudagskvöld var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna manns sem lét ófriðlega inni á heimili á Höfn.  Maðurinn var handtekinn og færður af heimilinu en hann hafði brotið upp hurð og sýnt ógnandi framkomu gagnvart heimilsfólki.

Karlmaður á Hellu hótaði fyrrverandi sambýliskonu sinni að vinna henni tjón. Brotaþoli hefur gert kröfu um nálgunarbann og er málið í vinnslu.

Tveir karlmenn voru handteknir á Selfossi fyrir að vera með í vörslum sínum amfetamín og kannabisefni. Í báðum tilvikum var um lítið magn að ræða.  Mennirnir viðurkenndu brot sín.

Í síðustu viku voru 26 umferðaróhöpp og slys skráð hjá lögreglunni á Suðurlandi. Alvarlegast var árekstur tveggja bifreiða á einbreiðri brú yfir Stígá í Öræfasveit.  Brúin er skammt frá Hólá þar sem banaslys varð á annan dag jóla á einbreiðri brú.

Kona mjaðmagrindarbrotnaði á Þingvöllum þegar hún hrasaði er hún var að stíga út úr rútu. Hún var flutt með sjúkrabifreið á Slysadeild Landspítalans.

Í vikunni voru fjórir ökumenn kærðir fyrir fíkniefnaakstur, þrír fyrir ölvunarakstur og fimm fyrir hraðakstur.