28 September 2015 08:59

Karlmaður slasaðist alvarlega á hendi í Sveitarfélaginu Hornafirði síðastliðinn miðvikudag.  Slysið varð með þeim hætti að verið var að draga vörubifreið úr festu þegar krókur dráttarbifreiðarinnar slitnaði frá henni og skaust af miklu afli inn um afturrúðu vörubifreiðarinar og lenti á hendi ökumanns hennar með þeim afleiðingum að hann skaðaðist illa á fingrum.  Maðurinn var fluttur á heilsugæslustöðina á Höfn til aðhlynningar.

Um helgina höfðu lögreglumenn á Höfn afskipti af skemmtistað þar sem dansleikur stóð yfir eftir klukkan þrjú.  Forstöðumanninum var gert að stöðva skemmtunina og rýma húsið.

Rétt uppúr klukkan 19:00 á laugardag var brotist inn í Vínbúðina á Selvogsbraut 41 í Þorlákshöfn og þaðan stolið áfengi og skiptimynt.  Öryggiskerfi verslunarinnar gerði viðvart um innbrotið.  Verslunarstjórinn var kominn á vettvang nokkrum mínútum síðar en enginn var í verslunni þegar hann kom þar.  Stuttu áður en íbúi í nágrenni Vínbúðarinnar heyrði í öryggiskerfinu sá hann til tveggja eða þriggja manna á hlaupum suður Hjallabraut.  Þeir voru í dökkum fötum á að giska öðru hvoru megin við þrítugt.  Ef einhver býr yfir vísbendingum um þjófnaðinn þá er hann vinsamlegast beðinn að hafa samband við lögreglu í síma 444 2010.

Á sunnudag barst tilkynning á lögreglustöðina á Hvolsvelli um utanvegaakstur í Landmannalaugum.  Þar voru á ferð erlendir ferðamenn á tveimur jeppum sem skildu eftir sig um eins kílómetra för í jarðveginum.

Ungur karlmaður var handtekinn á Selfossi í síðustu viku með smávegis magn af kannabis.  Hann viðurkenndi að eiga efnið.

Tveir eigendur ökutækja voru kærðir fyrir að aka um á ótryggðum bifreiðum.  Sekt við slíku broti er 30 þúsund krónur.

Í ágúst og september hafa lögreglunni á Suðurlandi borist 46 tilkynningar um að ekið hafi verið á búfé.  Um helmingur tilvikanna var á starfssvæði lögreglumanna á Höfn í Hornafirði.  Ökumenn eru beðnir að gæta vel að búfé við þjóðvegi á leið sinni um þá.