31 Ágúst 2015 09:25

Mikið álag hefur verið á lögregluliðinu á Suðurlandi í síðustu viku vegna tveggja banaslysa og annara verkefna sem komu upp í tengslum við ferðamenn sem hafa slasast, týnst á fjöllum, ekið utan vegar og svo framvegis.

Átta minni háttar þjófnaðarmál voru kærð til lögreglu, flest á Selfossi sex talsins.

Lögreglumenn á Hvolsvelli höfðu á dögunum afskipti af ökumanni vegna hraðaksturs.  Ökumaðurinn sagðist hafa tekið bifreiðina á leigu hjá bílaleigu á höfuðborgarsvæðinu.  Við nánari skoðun reyndist bifreiðin ekki skráð sem bílaleigubifreið og ekki með viðeigandi tryggingar.  Grunur er um að forsvarsmenn bílaleigunnar hafi brotið lög um bílaleigur og verður málið rannsakað frekar.

Erlendur ferðamaður var kærður fyrir utanvegaakstur í Landmannalaugum.  Honum var gert að greiða 100 þúsund krónur í sekt.  Lögreglu á Höfn bárust tvær tilkynningar um utanvegaakstur við Fjalljökul.  Ekki náðist í þá ökumenn sem þar voru að verki.

Lögreglunni var tilkynnt um slys á ellefu einstaklingum í vikunni þar sem fólk beinbrotnaði vegna falls eða hlaut minni háttar áverka af ýmsum ástæðum.

Hraðakstursbrotum hefur fækkað frá því sem verið hefur í sumar.  Í þessari viku  voru 35 kærðir fyrir hraðakstur.  Skýringin getur legið í því að umferð er orðinn minni og hitt að lögreglumenn hafi verið  að sinna skylduverkefnum á kostnað frumkvæðisverkefna.  Einn var kærður fyrir ölvunarakstur og annar fyrir að aka bifhjóli sviptur ökuréttindum.