2 Maí 2016 09:03

Lögreglu barst tilkynning um líkamsárás á Hótel Stracta á Hellu uppúr klukkan fimm í gærmorgun. Þar hafði gestur slegið annan gest í höfuðið með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á augabrún.  Árásarþolinn vísaði lögreglu á árásarmanninn og er málið í rannsókn.

Á tímabilinu frá 22. apríl síðastliðinn til 26. apríl var brotist inn í sumarhús á Stokkseyri og þaðan stolið 32” flatskjá. Innbrotsþjófurinn hafði brotið rúðu með því að kasta blómakeri í hana.  Blóðslettur voru hér og þar í húsinu sem bendir til að þjófurinn hafi skorist við að fara inn um gluggann.

Lögreglumaður í Vík sem var staddur inni í Víkurskála fann kannabislykt leggja frá manni sem þar kom inn. Við nánari skoðun kom í ljós að maðurinn, grískur ferðamaður, var með, í buxnavasa, kannabisskammt.  Maðurinn gaf þá skýringu að hann væri með efnin til eigin nota.  Við uppflettingu í lögreglukerfum hér og erlendis voru engar skráningar um manninn og fékk hann að halda ferð sinni áfram eftir að hafa greitt sekt fyrir vörslu kannabisefnisins.

Snemma á föstudagsmorgun var ökumaður stöðvaður á Eyrarbakkavegi á milli Eyrarbakka og Selfoss. Í ljós kom að í bifreið hans var talsvert magn, um 1000 grömm, af kannabisefnum.  Maðurinn var handtekinn og færður í fangageymslu.  Frekari rannsókn leiddi af sér að maðurinn var að koma frá geymsluhúsnæði í Þorlákshöfn þar sem kannabisræktun hafði verið í gangi.  Þar var nýafstaðin ræktun og af ummerkjum að dæma mátti ætla að verið væri að flytja ræktunina á annan stað.  Sá handtekni viðurkenndi að hafa verið að aðstoða félaga sinn við að flytja efnin úr geymsluhúsnæðinu en hann hafi ekki komið að ræktuninni sjálfri.  Málið er í rannsókn og efnin verða send til efnarannsóknar.

Í vikunni voru skráð 19 umferðaróhöpp og slys í umdæminu en engin alvarleg meiðsl hlutust.

Umferðadeild lögreglunnar hafa verið við eftirlit vítt og breytt. Tveir ökumenn hópflutningabíla voru kærðir fyrir að hafa ekki full ökuréttindi til að aka slíkum ökutækjum.  Einn var kærður fyrir að aka án þess að hafa endurnýjað ökuskírteini sitt.  Þá voru 37 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur.  Flestir voru á bilinu 120 til 130 km.

Í heild voru 254 brot og verkefni skráð hjá lögreglunni á Suðurlandi í síðustu viku.