1 Júní 2015 10:24

Á einni viku komu fram 81 kæra vegna umferðarlagabrota þar af voru 63 kærðir fyrir hraðakstur allir á þjóðvegi 1, Suðurlandsvegi.  Sá sem hraðast ók var mældur á 152 km/klst., 33 ökumannanna óku á yfir 120 km/klst.  Af öllum þeim kærðu voru erlendir ferðamenn 46 eða 73%.  Svo virðist sem hlutfallið hafi farið hækkandi að undanförnu.  Tveir voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, tveir fyrir ölvunarakstur og tveir fyrir akstur sviptir ökuréttindi.  Annar þeirra var jafnframt kærður fyrir hrað- og fíkniefnaakstur.

Í gær barst lögreglu tilkynning um rúðubrot í veiðihúsi við Ytri Rangá.  Tvær rúður höfðu verið brotnar.  Ekki var að sjá að farið hafi verið inn í húsið og því engu stolið.  Síðar var hringt aftur til lögreglu með þær upplýsingar að málið væri upplýst.  Sökudólgurinn var hrútur sem sleppt hafði verið út fyrr um daginn.  Hvort þarna var á ferðinni hinn kunni hrekkjalómur  Salamón svarti sem þeir sem eldri eru kannast við úr samnefndri bók eftir Hjört Gíslason.  Hrúturinn sá var prakkari hinn mesti sem á stundum lék lögregluna grátt.

Innkeyrsluhlið á vegi að Dyrhólaey var skemmt í síðustu viku.  Af ummerkjum má ráða að lás á hliðinu hafði verið klipptur í sundur og taug sett í hliðið til að toga það niður.  Hliðið hefur þann tilgang að loka fyrir umferð ökutækja inn á friðað svæði.  Þeir sem þarna voru að verki hafa að líkindum ekki farið inn á svæðið þar sem engin ummerki bílaumferðar var að sjá.  Þeir sem veitt geta upplýsingar um málið eru beðnir að hringja í síma lögreglustöðvarinnar í Vík 444 2030.

Kvennmannsreiðhjóli var stolið frá Álftarima 3 á Selfossi á milli klukkan 18 og 22 á annan í hvítasunnu.  Hjólið er grátt að lit með stjörnum í gjörð, körfu framan við stýri og með svartri bjöllu.  Eigandinn sem hefur aðeins reiðhjólið til að komast á milli staða saknar þess sárt.  Þeir sem hafa séð reiðhjólið eða geta veitt upplýsingar um hvar það er niðurkomið vinsamlegast hringið í 444 2010.

Í síðustu viku var lögreglan á Suðurlandi sjö sinnum kölluð út vegna umferðaróhappa sem voru án alvarlegra meiðsla á fólki.  Sex sinnum var tilkynnt um slys á fólki.  Var um að ræða hestaslys og slys þar sem fólk hafði misst fótanna með minni háttar afleiðingum.

Um hádegi í gær, sunnudag, var slökkvilið kallað að Hótel Flúðum.  Þar var verið að brenna gróður á milli gangstéttarhellna er eldur komst í pappaklæðningu.  Slökkviliðsmenn náðu að slökkva eldin.  Tjón reyndist óverulegt.