9 Nóvember 2015 08:58

Talsverður viðbúnaður lögreglu og slökkviliðs varð um klukkan tvö í nótt vegna reyks sem lagði frá dæluvatnslokahúsi austan við stöðvarhús Hellisheiðarvirkjunnar.  Lögregla, slökkvilið frá Brunavörnum Árnessýslu og höfuðborgarsvæðinu ásamt sjúkraliði frá HSU fóru með forgangi á vettvang.  Ekki var sjáanlegur eldur þegar slökkvilið kom á staðinn en mikill reykur sem kom frá skiljuvatnsdælu.  Starfsmenn virkjunarinnar sem voru á vakt fengu boð um eld í viðvörunarkerfi.  Þegar starfmennirnir komu í húsið sáu þeir eldglæringar koma frá legu vatnsdælunnar.  Af þessu hlutust ekki slys á fólki.  Slökkviliðsmenn reykræstu húsið og það gekk vel og fjárhagslegt tjón óverulegt.

Í upphafi síðustu viku var kona handtekin í Biskupstungum vegna gruns um innbrot í tvo sumarbústaði.  Eftirlitskerfi í öðrum bústaðnum fór í gang og eigandi hans sá í eftirlitsmyndavél par inni í bústaðnum.  Þegar lögreglan kom á vettvang var konan ein í bifreið á svæðinu en félagi hennar horfinn út í myrkrið.  Í bifreiðinni fannst lítilræði af kannabis.  Konan var færð í fangageymslu og síðar yfirheyrð.  Málið er í rannsókn.

Aðfaranótt miðvikudags veittu lögreglumenn á vakt athygli manni á göngustíg við Fossheiði á Selfossi þar sem hann henti frá sér rusli.  Lögreglumennirnir höfðu afskipti af manninum en hann varð verulega órólegur þegar hann varð lögreglumannanna var og lét sem hann sæi þá ekki og lagði á flótta sem mistókst.  Við leit á manninum fundust á annan tug gramma af hvítu dufti sem talið er vera amfetamín.  Hann var handtekinn og yfirheyrður á lögreglustöð.  Efnið verður sent til rannsóknar.  Þegar niðurstaða þeirrar rannsóknar liggur fyrir verður málið sent til ákærusviðs lögreglustjórans á Suðurlandi.