5 September 2016 10:16

Lögreglumenn á Höfn höfðu afskipti af ferðamanni sem hafði gerst sér svefnstað á bekk fyrir utan Hafnarkirkju á Höfn. Manninum var bent á tjaldsvæðið og tók hann ábendingunni vel og taldi það góða lausn á gistimálum sínum.

Komið var að dauðu lambi í vegkanti þjóðvegar 1 við Höfn í vikunni. Af ummerkjum að dæma mátti vera ljóst að bifreið hafi verið ekið á lambið en ökumaður ekki látið vita og ekki liggur fyrir hver hann er.

Kona slasaðist á mjöðm þegar hún varð á milli bíls og veggjar á þvottaplani á Hvolsvelli síðastliðinn föstudag.

Í síðustu viku voru 44 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi. Þrír voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og einn fyrir ölvunarakstur.

Afskipti voru höfð af ökumanni leigubifreiðar við Gullfoss sem var með nokkra farþega. Hann gat ekki framvísað rekstrarleyfi og var kærður fyrir brot á lögum um leigubifreiðar.