10 Október 2016 10:18

Nokkur slys og ófarir komu við sögu hjá lögreglunni á Suðurlandi um helgina.

Uppúr klukkan sjö í morgun barst lögreglu tilkynning um mann sem varð fyrir slysaskoti á Helluvaðssandi norðaustan við Hellu. Maðurinn var inni í byrgi að búa sig undir fuglaveiði þegar skot hljóp úr byssu, sem hann var með, í fót hans.  Ekki liggur fyrir hve mikið maðurinn er slasaður en sjúkrabifreið kom á staðinn og flutti hann á slysadeild.

Í ljós hefur komið við rannsókn slyssins í Gömlu sundlauginni á Flúðum þar sem fullorðinn erlendur karlmaður brenndist illa að hann féll í þró sem í var um 96°C heitt vatn. Aðdragandinn mun hafa verið með þeim hætti að maðurinn fór upp úr lauginni og gekk nokkra metra að timburgöngustíg. Þegar hann steig upp á hann hrasaði hann og féll í þróna.  Honum tókst að koma sér upp af sjálfsdáðum en hafði þá verið í nokkrar sekúndur í nær sjóðandi vatninu sem var um 25 sentimetra djúpt.  Lögreglu er ekki á þessari stundu ljóst um ástand mannsins sem mun vera alvarlegt.

Karlmaður handarbrotnaði aðfaranótt sunnudags á veitingastað á Selfossi eftir að hafa hoppað af borði niður á stól og þaðan í gólfið. Maðurinn var fluttur á heilsugæslustöðina á Selfossi til skoðunnar.

Kona axlar- og fótbrotnaði eftir að hafa velt vélsleða á Langjökli við Skálpanes. Konan var í snjósleðaferð og hafði velt sleðanum en náð að koma honum á réttan kjöl aftur en stuttu síðar valt sleðinn aftur með fyrrgreindum afleiðingum.  Hún var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala í Fossvogi.

Klukkan 03:52 aðfaranótt laugardags barst tilkynning til lögreglu að maður hafi veist að ungri konu við skemmtistaðinn Fróns á Selfossi þá skömmu áður. Fyrir utan skemmtistaðinn kom til orðaskipta á milli hennar og karlmanns sem hún lýsti sem tæplega 180 sm háum með dökkt snoðklippt hár og enskumælandi líklega pólskur. Lögreglan á Suðurlandi biður þá sem veitt geta upplýsingar um þetta atvik að hafa samband í síma 444 2000 eða í tölvupósti á sudurland@logreglan.is.