14 Mars 2016 08:54

Hjá lögreglunni á Suðurlandi voru 262 verkefni skráð í síðustu viku.

Lögreglumenn í Vík og Kirkjubæjarklaustri voru með skipulagt umferðareftirlit í og við Vík og Klaustur.  Meðal annars var könnuð notkun öryggisbelta í hópferðabifreiðum.  Þar reyndist meinbugur á í nokkrum tilvikum.  Ökumenn og fararstjórar gátu þess að þeir leggðu mikið upp úr því að fá farþega til að nota öryggisbelti en sumir létu slíkan lestur sem vind um eyru þjóta.

Í umdæminu voru 33 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur þar af 15  á svæðinu frá Vík austur að Höfn.  Tveir fyrir ölvunarakstur.

Eins og áður hefur verið greint frá hefur umferðareftirlitsdeildin verið á ferðinni í Árnessýslu og á höfuðborgarsvæðinu.  Í því eftirliti er fylgst með ásþunga, ökuritum, hvíldartíma ökumanns, rekstrarleyfum, hópferðaleyfum og fleiru.  Nokkrir ökumenn voru kærðir í þessu eftirliti.  Þess má geta að eigendur ökutækja eru einnig kærðir í brotum sem tengjast hvíldartíma og ökurita.  Sekt þeirra er hærri en ökumanna.

Þrjár minni háttar líkamsárásir voru kærðar á Selfossi.  Karlmaður í Þorlákshöfn var kærður fyrir að brjóta gegn nálgunarbanni.

Tilkynnt var um innbrot í sumarbústað í landi Böðmóðsstaða í Bláskógabyggð.  Við rannsókn kom í ljós að munir sem teknir voru úr bústaðnum höfðu verið í bíl tveggja manna sem lögreglan handtók fyrir skömmu eftir innbrot í verslun á Laugarvagni.

Smáskammtur af amfetamíni fannst í klefa  hjá fanga á Litla Hrauni.  Við yfirheyrslu viðurkenndi fanginn að eiga efnið.  Efnið verður sent til efnagreiningar og ákvörðun um framhald málsins miðast við niðurstöðu hennar.