28 Desember 2015 08:59

Lögreglan hafði í nógu að snúast um helgina vegna tveggja  hörmulegra slysa.  Annars vegar manns sem leitað var að í og við Ölfusá en hefur nú verið talinn af og árekstur tveggja bifreiða í Öræfum þar sem ökumaður annarar bifreiðarinnar lést.  Rannsókn beggja þessara slysa er í rannsókn.

Hollenskur ferðamaður öklabrotnaði  í Skaftafelli á jóladag.  Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala í Fossvogi.  Lögreglumaður á Kirkjubæjarklaustri fór til að kanna aðstæður á staðnum.  Í ljós kom að maðurinn hafði runnið til í hálku á veginum í þjóðgarðinum með fyrrgreindum afleiðingum.

Lögreglumaður í Vík var kallaður út seint á aðfangadagskvöld vegna tveggja ferðamanna sem höfðu lent í umferðaróhappi er bifreið þeirra lenti á vegriði vestan við Vík.  Mennirnir slösuðust ekki en bifreiðin var óökufær.  Aðstoða þurfti mennina við að komast í gistingu þar sem þeim var ljóst að samgöngur væru tvísýnar á þeim tíma sem þeir voru á ferðinni.

Aðfaranótt aðfangadags jóla barst lögreglu tilkynning um bifreið sem hefði farið útaf Skeiðavegi við Kílhraun.  Þegar lögreglan kom á staðinn vaknaði grunur um að ökumaður hafi verið undir áhrifum áfengis.  Hann var handtekinn og færður í lögreglustöð þar sem hann var yfirheyrður.  Málið er í rannsókn og bíður niðurstöðu blóðrannsóknar.

Ökumaður var handtekinn aðfaranótt þriðjudags eftir að hafa ekið á kyrrstæða bifreið við Eyraveg á Selfossi.  Maðurinn reyndist ölvaður og brást illa við þegar lögreglumenn handtóku hann.  Hann barðist um og reyndi að skalla lögreglumann á meðan handtökunni stóð. Við leit á manninum fannst lítilræði af kannabis. Maðurinn var færður í fangageymslu þar sem hann var látinn sofa úr sér ölvímuna og að því loknu yfirheyrður og látinn laus í framhaldi af því.