19 Apríl 2016 14:20

 

Vetrinum er ekki alveg lokið og það snjóaði og blés svo mikið það þurfti að loka fjallvegum á Vesturlandi um tíma vegna ófærðar og lélegs skyggnis um sl. helgi.

Fimm umferðaróhöpp urðu í umdæminu í sl. viku, þar af tvö þar sem ökumenn eru grunaðir um að hafa verið undir áhrifum áfengis eða vímuefna.

Ökumaður bíls sem fór útaf og valt á Snæfellsnesvegi við Hítará var meðvitundarlaus þegar að var komið og var fluttur á sjúkrahús en talið var að meiðsl hans væru ekki alvarleg.

Erlendir ferðamenn voru aðstoðaðir víða í umdæminu, ef þeir voru ekki fastir í snjó þá voru þeir fastir í aurbleytu. Þjónustuaðilar voru kallaðir út til að aðstoða ferðamennina.

Lögreglan sektaði fimm ökumenn fyrir rangstöður í Borgarnesi í sl. viku. Þá voru skráningarnúmer klippt af nokkrum bílum sem ekki höfðu verið færðir til aðalskoðunar og aðrir boðaðir í skoðun. Gerðar voru athugasemdir við ljósabúnað nokkurra stórra flutningabíla og skífur úr ökurita skoðaðar vel hjá öðrum, með tilliti til aksturs og hvíldartíma ökumanns.  Sjálfvirku hraðamyndavélarnar skiluðu alls 571 myndum af ökumönnum sem að óku of hratt, víðs vegar um landið en í umdæmi LVL voru 53 myndaðir fyrir of hraðan akstur við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls.  Þá tóku lögreglumenn sjálfir 28 ökumenn fyrir hraðakstur í sl. viku.

Lögreglunni var tilkynnt um vannærð hross í útigangi í girðingarhólfi bónda Borgarfirði.  Málið var tilkynnt til viðeigandi aðila hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands og Matvælastofnun sem að ætluðu að kanna málið frekar.

Á heimasíðu Matvælastofnunar –MAST- er eftirfarandi reglu að finna: “Hver sá sem verður var við illa meðferð á dýrum ber að tilkynna það í gegnum ábendingarkerfi MAST,  til héraðsdýralækna hennar eða til lögreglu. Sömuleiðis ber hverjum þeim sem verður var við að umráðamann búfjár skorti hús, fóður eða beit fyrir búfé sitt, hann vanfóðri það eða beiti það harðýðgi, að tilkynna það viðkomandi héraðsdýralækni Matvælastofnunar.”  Nokkuð er um að lögreglu berist slíkar tilkynningar og er þeim þá komið til réttra aðila.