20 September 2016 14:28

Alls urðu tíu umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi í sl. viku, þar af eitt banaslys er jeppi valt á Útnesvegi skammt austan við Arnarstapa á Snæfellsnesi og maður lést.  Kona sem einnig var í bílnum var flutt alvarlega slösuð á sjúkrahús í Reykjavík með þyrlu Landhelgisgæslunnar.  Þá slasaðist ökumaður malarflutningabíls er bíllinn valt þegar verið var að sturta malarhlassi af honum í Laxárdal í Dalabyggð.  Var ökumaðurinn fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús.  Fjórir erlendir ferðamenn voru í jepplingi sem að valt á holóttum malarvegi á Skógarstönd.  Einn var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús í Reykjavík en tveir þeirra voru fluttir á heilsugæslustöðina í Búðardal til aðhlynningar en talið var að meiðsl þeirra væru minniháttar.  Í einu af þessum tíu óhöppum var ungur ökumaður að skipta um geisladisk þegar honum fipaðist við aksturinn og hann missti bílinn útaf þar sem hann valt.  Ökumaðurinn var með bílbelti og slapp því við alvarleg meiðsli. 

Tveir ökumenn voru teknir fyrir meinta ölvun við akstur í vikunni.

Þrír menn af erlendum uppruna voru stöðvaðir í Borgarnesi að kvöldi sl. laugardags, eftir að sést hafði til þeirra í þjófnaðarleiðangri á Snæfellsnesi.  Í Ólafsvík höfðu þeir m.a. náð að stela kerru, tölvu og veiðigræjum úr heimahúsi og gps staðsetningartæki, talið trúlega vera ættað úr fiskveiðibáti miðað við lyktina..   Voru mennirnir handteknir og vistaðir í fangageymslum þar til búið var að yfirheyra þá um leiðangur þeirra vestur á Snæfellsnes.  Flestum þeim munum sem stolið var er nú búið að koma aftur til eigenda.