22 Nóvember 2016 14:58

Alls urðu sjö umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku, flest minniháttar og vegna vetrarfærðar. Engin stórvægileg meiðsl urðu á fólki í þessum óhöppum að því best er vitað. Síðastliðinn fimmtudag var fólksbíl ekið inn í skafl sem var á Vesturlandsvegi við Beitistaði og missti ökumaðurinn bílinn útaf og hafnaði hann á hvolfi utan vegar. Fimm voru í bílnum og sakaði þá ekki enda allir í bílbeltunum. Þeim var hins vegar orðið nokkuð kalt og fengu þeir að setjast inn í snjóruðningstæki sem kom á staðinn, á meðan beðið var eftir lögreglunni sem að kom þeim síðan til byggða. Þá rann jeppi erlendra ferðamanna útaf í hálku og valt á Skógarströnd sl. mánudag. Klakaklammi var á veginum og bíllinn var á ónegldum snjódekkjum. Fólkið slapp án teljandi meiðsla en það var í öryggisbeltum og líknarbelgir bílsins sprungu út þeim til varnar.

Samtals urðu 13 minniháttar tilvik í vetrarfærðinni sem ekki eru bókfærð sem umferðaróhöpp. Er þar um að ræða vandræði er bílar festast í snjó, renna út í kant eða útaf án þess að velta eða skemmast. Í síðustu viku voru erlendir ferðamenn í miklum meirihluta í þessum hópi enda sumir að reyna sig við Arnarvatnsheiðina, Uxahryggi, Kaldadal og fleiri fjallvegi á litlum bílum. Lögreglan kallaði út dráttarbíla í flest þessara verkefna þar sem fólk var ekki talið vera í hættu.

Tilkynnt var um erlenda ferðamenn sem hefðu fest jeppa út í móa sunnan við Hafnarskóg undir Hafnarfjalli í vikunni. Í ljós kom að fólkið hafði ætlað að stytta sér leið fram hjá lokuðum vegi í sumarhúsahverfi en pikkfest jeppann þá í mýrinni eftir um 500 metra akstur utan vega. Jeppinn var spilaður upp og fólkið var flutt á lögreglustöðina til skýrslutöku. Var ökumaðurinn kærður fyrir utanvegaakstur og greiddi hann 50 þúsund kónur í sekt fyrir verknaðinn.

Tilkynnt var í tvígang um nakta eða fáklædda menn á gangi utandyra á Akranesi í sl. viku. Annar þeirra fannst á röltinu og var honum komið til aðstoðar en hinn er ófundinn, en hann var að vísu bara ber að ofan. Höfðu menn á orði að þarna væru hraustmenni á ferð þar sem hitastigið var með lægra móti og nokkur næðingur að norðan.

Mikið tjón varð að Miðhrauni á Snæfellsnesi í eldi sem kom upp í fiskverkunarhúsum á staðnum aðfaranótt mánudags. Málið er til rannsóknar hjá rannsóknardeild LVL.

Einn ökumaður var tekinn fyrir ölvun við akstur í umdæminu í sl. viku.