25 Október 2016 15:50

Sex umferðaróhöpp urðu í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi í sl. viku. Allir hlutaðeigandi sluppu án teljandi meiðsla frá þessum óhöppum, að því best er vitað, enda fólkið með öryggisbeltin spennt.

Erlend hjón sem voru á húsbíl leituðu skjóls undir Brekkufjalli í Borgarfirði í óveðrinu sl. föstudag. Fengu þau inni í sumarhúsi og gistu þar um nóttina og komu húsbílnum í skjól við húsið en í honum þorðu þau ekki að gista því hann lék á reiðiskjálfi. Það gekk á með vindhviðum um nóttina og þegar þau litu út um morguninn þá sáu þau hvar húsbíllinn hafði fokið frá húsinu og lent á hliðinni neðan við vegslóða. Það finnst mörgum undarlegt að verið sé að leigja út húsbíla og hjólhýsi til erlendra ferðamanna á þessum árstíma þegar Íslendingar eru flestir búnir að koma sínum húsbílum, hjólhýsum og fellihýsum í öruggt skjól fyrir veðri og vindum.

Lögreglunni var í sl. viku tilkynnt um einkennilegt aksturslag jeppa sem var að koma að sunnan. Strax og sást til jeppans kom í ljós að ekki var allt með felldu með aksturinn. Jeppanum var ekið mjög hægt og rykkjótt og stundum var hann alveg út í kanti. Þegar náðist að stöðva bílinn, sem gerðist eftir nokkrar tilraunir, kom í ljós að í honum voru tvær asískar konur sem voru í lagi að öðru leyti en því að þær kunnu ekkert á bílinn. Eftir örnámskeið hjá lögreglunni um hvernig aka eigi sjálfskiptum bíl þá fóru þær aftur af stað og lögreglan keyrði á eftir þeim. Stuttu síðar voru þær stöðvaðar aftur og þeim bent á að betra væri að standa ekki á bremsunni þegar ekið væri áfram. Að leiðbeiningum loknum var þeim leyft að halda áfram og var þeim óskað góðrar ferðar en þær höfðu leigt bílinn í Reykjavík þaðan sem þær voru að koma. Ekki bárust frekari tilkynningar um ferðir þessara kvenna um þjóðvegi landsins.

Einn ökumaður var tekinn fyrir ölvun við akstur í umdæminu í sl. viku.