26 Apríl 2016 14:49

Alls urðu sjö umferðaróhöpp í umdæminu í sl. viku.  Aðfaranótt sumardagsins fyrsta fór pallbíll útaf Snæfellsnesvegi og valt við Tungulæk skammt vestan Borgarness.   Ökumaðurinn hlaut alvarlega höfuðáverka og var fluttur af vettvagni í sjúkrabíl til móts við þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti hann á bráðamóttöku Landspítalans.  Bíllinn gjöreyðilagðist við velturnar og var fjarlægður af vettvangi með kranabíl.

Upp úr hádegi sl. laugardag var komið að konu um nírætt þar sem hún lá fyrir utan dvalarheimilið Brákarhlíð í Borgarnesi.  Talið er líklegt að ekið hafi verið utaní göngugrind konunnar og hún þá fallið í götuna og slasast.  Var konan flutt á sjúkrahús til skoðunar.  Þeir sem kynnu að geta veitt upplýsingar um þetta mál eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á Vesturlandi í síma 444-0300.

Fólksbíll sem var á leið suður fór yfir á rangan vegarhelming á þjóðveginum undir Hafnarfjalli síðdegis sl. sunnudag og hafnaði á bíl sem að kom úr gagnstæðri átt, þrátt fyrir að ökumaður þess bíls reyndi að aka út fyrir veg til að bjarga málunum.  Ökumaður bíls sem kom næstur á eftir þeim sem ekið var á náði að beygja útaf veginum og koma þannig í veg fyrir harða aftanákeyrslu.  Ekki er ljóst hvers vegna bílnum var ekið yfir á öfugan vegarhelming.  Alls voru sex aðilar fluttir á  heilsugæslustöðina í Borgarnesti til frekari skoðunar en fólkið slapp lítið meitt enda allt í öryggisbeltum og þá blésu líknarbelgirnir einnig út og tóku af þeim mestu höggin.  Bílarnir voru báðir mikið skemmdir og óökufærir og voru þeir fjarlægðir af vettvangi með kranabíl.

Einn ökumaður var tekinn fyrir meintan akstur undir áhrifum fíkniefna.

Hraðamyndavélarnar tóku myndir af rúmlega 300 ökumönnum fyrir hraðabrot þar af um 80 við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls.  En lögreglumennirnir tóku sjálfir um 50 ökumenn fyrir hraðabrot víðs vegar í umdæminu. Ýmist þar sem hámarkshraði er 50, 70 eða 90 km á klst.