1 Nóvember 2016 15:42

Alls urðu sjö umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku. Flest þessara óhappa voru minniháttar nudd á bílastæðum.
Það fór betur en áhorfiðst þegar asískur ökumaður missti stjórn á bílaleigubíl sínum í snjó og krapa á Vesturlandsvegi sl. laugardag. Hann var á ferðalagi með kunningja sínum og upp undir Holtavörðuheiðinni lenti hann í krapa og snjóföl sem var á veginum, hann bremsaði þá með þeim afleiðingum að bíllinn rann stjórnlaust yfir veginn og lenti á mannlausum pallbíl rjúpnaskyttu sem var þar út í vegkantinum. Bílaleigubíllinn varð óökufær við áreksturinn en pallbíll rjúpnaskyttunnar tjónaðist nokkuð en var þó vel ökufær. Asísku ferðamennirnir sluppu án teljandi meiðsla enda voru þeir í öryggisbeltum og varðir af líknarbelgjum sem að sprungu út í atgangnum. Var ferðamönnunum komið til byggða. Þá voru aðrir asíubúar á ferðinni á Heydalnum í vikunni og misstu þeir bílinn sinn útaf í lausamöl og skemmdist undirvagninn það mikið að fjarlægja þurfti bílinn með kranabíl. Bíllinn fór í einhverjum loftköstum utan vegar en hélst á réttum kili. Ferðamennirnir sluppu ómeiddir enda báðir í öryggisbeltunum. Var ferðamönnunum komið til byggða og ætluðu þeir að reyna að fá annan bílaleigubíl og halda för sinni áfram um íslenska vegakerfið.

Alltaf er nokkuð um tilkynningar um lausagöngu búfjár á vegsvæðunum. Oftast eru um kindur að ræða en stundum sleppa hrossin líka út á vegina en mun sjaldnar sést nautpeningur á vegunum, hvað þá á þessum árstíma. En aðfaranótt mánudagsins gerðist það að tilkynnt var um nokkra stórgripi á Vatnaleiðinni, haft var samband við bændur í nágrenninu sem að brugðust hratt við og komu gripunum til síns heima. Ekki mun hafa verið um mjólkandi kýr að ræða. Nauðsynlegt er að vegfarendur tilkynni um lausagöngu búfjár til 112 eða viðkomandi lögreglu sem að bregst þá strax við og vinnur að því að koma skepnunum af vegsvæðinu og inn í næstu girðingar í samvinnu við bændur og búalið. Mikill skaði getur orðið af ákeyrslu á skepnur og oft er erfitt að koma auga á dýrin í myrkrinu fyrr en það er orðið of seint að bregðast rétt við.

Lögreglan stoppaði um 40 ökumenn við leikskóla í Borgarnesi í sl. viku og kannaði með notkun öryggisbúnaðar. Reyndust börn og fullorðnir vera með allan öryggisbúnað í lagi. Til stendur að halda þessu eftirliti áfram víðar í umdæminu.

Einn ökumaður var tekinn fyrir ölvun við akstur í umdæmi LVL í s.l. viku.