3 Maí 2016 15:53

Aðeins urðu tvö umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku.  Annað minniháttar á Akranesi en hitt varð á Laxárdalsheiði í Dölum um hádegisbilið sl. föstudag.  Þar misstu erlendir ferðamenn bílaleigubíl sinn útaf í lausamöl á malarvegi og valt bíllinn í vegkantinum.  Tveir voru í bílnum og voru þeir báðir fluttir með sjúkrabíl á sjúkrahús í Reykjavík.  Meiðsl þeirra voru minni en talið var í fyrstu.

Lögreglan hafði afskipti af um 20 ökumönnum vegna skoðunarmála í vikunni.  Voru skráningarnúmer klippt af nokkrum ökutækjum og aðrir boðaðir með bílana í skoðun.

Einn ökumaður var tekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna í umdæmi LVL í sl. viku.

Bóndi í Borgarfirði kveikti í sinu án leyfis í vikunni og má hann eiga von á að verða kærður og sektaður fyrir tiltækið.

Minniháttar bruni varð er eldur kviknaði í plastkassa út frá sígarettuglóð úti á svölum í nýrri íbúð í gamla bænum í Borgarnesi þriðjudagskvöldið 26. apríl sl.  Húsráðendur náðu með aðstoð nágranna að slökkva eldinn en reykræsta þurfti íbúðina. Nokkrar skemmdir urðu á timburverki svalanna.

Um 500 hraðakstursmála fóru í gegnum myndavélakerfi LVL, þar af voru um 70 ökumenn myndaðir fyrir of hraðan akstur við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls.  Lögreglumenn tóku rúmlega 20 ökumenn fyrir of hraðan akstur í sl. viku þar af nokkra innanbæjar í Borgarnesi þar sem er 50 km hámarkshraði.