3 Ágúst 2016 11:21

Umferðin um verslunarmannahelgina gekk að mestu leyti mjög vel fyrir sig. Var hún mjög mikil og þung á köflum og þegar hún er sem þéttust þá dettur almennur umferðarhraði niður og umferðin hægir nokkuð á sér.  Alls urðu 13 umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku, öll án mikilla meiðsla á fólki en nokkrir voru fluttir á heilsugæslustöðvar til skoðunar og farþegi úr bifreið sem lenti í árekstri á Útnesvegi á Snæfellsnesi var fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi til aðhlynningar en talið var að hann hefði m.a. rifbeinsbrotnað.  Almennt voru ökumenn og farþegar í öryggisbeltum í þessum óhöppum og bjargaði það eflaust mörgum frá alvarlegri meiðslum.  Ekki er flas til fagnaðar eins og máltækið segir og oft verða umferðarslysin í framhaldi af hraðakstri, ölvunarakstri eða ótímabærum framúrakstri.  Á Snæfellsnesvegi á Skógarströnd, við ána Skraumu og ofan við bæinn Dunk varð þriggja bíla árekstur í framhaldi af framúrakstri.  Miklar skemmdir urðu á ökutækjum en ökumenn og farþegar sluppu með minniháttar meiðsli.  Fólkið var flutt á heilsugæslustöðina í Búðardal til aðhlynningar.  Bílarnir, tveir fólksbílar og jeppi og voru fluttir á brott með kranabíl.  Þá er ökumaður bifreiðar sem að fór útaf og valt á Borgarfjarðarbraut grunaður um ölvun við akstur.  Tveir ökumenn voru teknir grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna í sl. viku.

Alls tóku hraðamyndavélarnar myndir af um 800 ökumönnum vegna hraðaksturs í sl. viku, þar af um 100 á myndavélunum við Hagamel og við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls.  Þá kærðu lögreglumenn um 40 ökumenn fyrir hraðakstur víðs vegar um umdæmið en flesta á hringveginum þar sem umferðin er mest.

Hestur með fullum reiðtygjum fannst á Ferjubakkavegi um helgina. Hafðist loks upp á eiganda hestsins sem sagði farir sínar ekki alveg rennisléttar.  Hann hafi verið í reiðtúr deginum áður og dottið af baki og tapað hestinum frá sér og því þurft að ganga heim til sín.  Var hann feginn að fá hestinn sinn aftur og byrjaði á því að spretta af honum hnakknum.