5 Júlí 2016 15:40

Mikil umferð hefur verið um umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi að undanförnu enda ferðamannatíminn í hámarki og sumarveðrið gott flesta daga.  Umferðin hefur gengið að mestu leyti vel fyrir sig.

Alls urðu níu umferðaróhöpp í sl. viku í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi, flest minniháttar.  Öll voru óhöppin án teljandi meiðsla á fólki enda allir í öryggisbeltunum.  Af þessum níu óhöppum þá voru þrjár útafkeyrslur á Snæfellsnesvegi sem áttu það sameiginlegt að ökumennirnir sem lentu útaf, höfðu allir sofnað undir stýri.  Ökumennirnir voru á svipuðum aldri eða undir sextugt og tveir liðlega komnir yfir þann aldur.  Ekki er vitað hvað varð til þess að þeim rann í brjóst en allir sluppu þeir vel utan þess að „vakna upp við vondan draum“.

Bæjarhátíðin „Á írskum dögum“ sem haldin var á Akranesi um sl. helgi fór að mestu leyti mjög vel fram.  Nokkuð var um að lögreglan væri kölluð til vegna pústra og óláta og einnig vegna ungmenna og fólks á besta aldri, og af báðum kynjum, sem hafði drukkið of mikið áfengi í kringum „lopapeysuballið“. Nokkrar líkamsárásir voru tilkynntar en ekki er enn ljóst hvort að kærumál verða úr þeim tilkynningum eða ekki.   Tveir ökumenn voru teknir fyrir meinta ölvun við akstur og einn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna á Akranesi um sl. helgi.

Tilkynnt var um mann á sextugsaldri sem veittist að ungum mönnum á torfæruhjólum við Ölver í Hvalfjarðarsveit um sl. helgi.  Var maðurinn sagður hafa barið með grjóti og unnið skemmdir á hlífðarbúnaði annars hjólamannsins, hjólinu hans sem og bifreið sem ungi maðurinn var á.  Virðist sem maðurinn hafi verið ósáttur við akstur ungu mannanna á hjólunum eftir vegslóðum á svæðinu sem hann hafði þó heimilað þeim skömmu áður að þeirra sögn.

Samtals voru 850 ökumenn myndaðir vegna hraðaksturs í sl. viku af sjálfvirku hraðamyndavélunum, þar af um 270 við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls.  Þá tóku lögreglumenn um 50 ökumenn fyrir of hraðan akstur í umferðareftirliti sínu víðs vegar í umdæminu.