5 Apríl 2016 15:33

 

Alls urðu fjögur umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku.

Tveir fólksbílar urðu fyrir skemmdum þegar farmur féll af palli flutningabíls og hafnaði á þeim á Vesturlandsvegi undir Hafnarfjalli. Nokkrar skemmdir urðu á bílunum en engan sakaði.

Hættulegt að taka myndir undir stýri..                                                             Tveir erlendir ferðamenn sluppu án mikilla meiðsla er þeir veltu bílaleigubíl sínum skammt frá Grundarfirði.  Voru þeir til öryggis fluttir á heilsugæslustöðina í Grundarfirði til skoðunar.  Sögðust þeir hafa verið að skiptast á að taka ljósmyndir á gsm síma í akstri á um 70 til 80 km hraða og kvaðst ökumaðurinn hafa litið af veginum í mesta lagi þrjár sekúndur áður en óhappið varð, rétt á meðan hann tók mynd.  Af förum á vettvangi mátti ráða að bíllinn hafi verið kominn út í vegöxlina þegar honum var beygt krappt aftur inn á veginn og missir ökumaðurinn síðan stjórn á bílnum í framhaldinu með þeim afleiðingum að hann veltur á veginum.  Bíllinn skemmdist mikið og var hann fluttur á brott með kranabíl.

Þrír ökumenn voru teknir, grunaðir um að akstur undir áhrifum fíkniefna, tveir þeirra eru einnig grunaðir um ölvun við akstur, einn þessara ökumanna var án ökuréttinda.  Í einum bíl fundust 38 grömm af kannabisefnum sem lögreglan lagði hald á.

Eldur kviknaði í ruslakari við hlið iðnaðarhúss á sveitabæ í Borgarfirði að kvöldi 1. apríl sl..  Heimilisfólkið varð eldsins vart í tíma og náði að ráða niðurlögum hans áður en að slökkviliðið mætti á staðinn.  Ekki er ljóst hvernig eldurinn kviknaði í karinu en líklegt er að um íkveikju hafi verið að ræða.  Maður brenndist á hendi við slökkvistörf í umrætt sinn. Málið er til rannsóknar hjá rannsóknardeild LVL.

Alls voru um 1100 hraðakstursmál afgreidd hjá LVL í sl viku, en embættið sér um úrvinnslu úr nær öllum hraðamyndavélum landsins.  Samtals voru um 150 ökumenn myndaðir fyrir of hraðan akstur við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls. Þá mældu lögreglumenn um 50 ökumenn fyrir of hraðan akstur, víðs vegar í umdæminu í sl. viku.