11 Október 2016 14:57

Aðeins urðu fjögur umferðaróhöpp í umdæmi Lögreglunnar á Vesturlandi í sl. viku og telst það vera vel sloppið miðað við fjölda óhappa undanfarnar vikur.

Erlendur ökumaður missti bílinn sinn útaf Vesturlandsvegi undir Hafnarfjalli í vindhviðu upp úr hádegi sl. miðvikudag. Hann slapp sjálfur með skrekkinn en bíllinn var fjarlægður með kranabíl.

Tveir erlendir ferðamenn lentu útaf á bílaleigubílnum sínum á afleggjaranum sem liggur að Hótel Hafnarfjalli um sl. helgi. Bíllinn hélst á réttum kili en fólkið fékk högg á sig er bíllinn lenti nokkuð harkalega. Fólkið slapp án teljandi meiðsla enda í öryggisbeltunum og svo bléstu líknarbelgirnir út við höggið. Bíllinn var óökufær eftir óhappið og var fjarlægður af kranabíl.

Það fór betur en áhorfðist er fólksbíll lenti utaní hestakerru við mætingu á Snæfellsnesvegi aðfaranótt mánudagsins. Óhappið atvikaðist þannig að ökumaður sendibíls sem var með hestakerru í drætti þurfti að sveigja fram hjá gangandi vegfaranda rétt um leið og hann mætti fólksbíl sem kom úr gagnstæðri átt. Gangandi vegfarandinn slapp en fólksbíllinn rakst utan í hestakerruna. Allir sluppu án teljandi meiðsla en til öryggis þá var ökumaður fólksbílsins fluttur á heilsugæslustöðina í Borgarnesi til skoðunar.

Alls tóku hraðamyndavélarnar rúmlega 1000 myndir af ökumönnum sem óku of hratt víðs vegar um landið sl. viku en unnið er úr gögnum frá þeim hjá Lögreglunni á Vesturlandi. Af þessum 1000 voru 183 myndir teknar af ökumönnum sem óku of hratt við Fiskilæk undir Hafnarfjalli. Þá tóku lögreglumenn 20 ökumenn fyrir of hraðan akstur í vikunni og 10 þeirra óku of hratt á kaflanum við Bifröst í Norðurárdal þar sem leyfilegur hámarkshraði er tekin niður í 70 km á klst.

Einn ökumaður var tekinn fyrir ölvun við akstur í umdæmi LVL í sl. viku.