12 Apríl 2016 15:30

Alls urðu tíu umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku, þar af tvö banaslys, annað á Holtvörðuheiði og hitt í Stykkishólmi, sjá nánar fyrri umfjöllun.

Síðastliðinn fimmtudag fór bifreið með þrjá erlenda ferðamenn útaf veginum á Laxárdalsheiði í Dalabyggð og hafnaði ofan í vegskurði og stöðvaðist á freðnum skurðbakka. Virtist sem ökumaðurinn hefði misst stjórn á bílnum í lausamöl í aflíðandi beygju en malarvegur er á þessum vegi og í ágætu standi miðað við slíka vegi á þessum árstíma.  Ökumaður og farþegi í framsæti voru í bílbeltum og sluppu án meiðsla en farþegi í aftursæti var laus og kastaðist hann fram í bifreiðina við höggið og brákaðist á hrygg og hálsi.

Ekið var á níu ára gamlan dreng á reiðhjóli á bifreiðastæðinu við íþróttahúsið við Jaðarsbakka á Akranesi sl fimmtudag. Drengurinn sem var á reiðhjólinu var með hjálm og slapp hann við alvarleg meiðsli en hlaut mar og rispur á fótleggjum.

Einn ökumaður var tekinn fyrir ölvun við akstur og tveir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna í sl. viku. Þá lagði lögreglan hald á um 20 gr. af kannabisefnum sem að maður frá Akranesi var með í bakpoka en hann var að koma frá Reykjavík þegar afskipti voru höfð af honum. Efnisleifar amfetamíns fundust hjá öðrum manni eftir að sést hafði til hans við neyslu.

Lögreglan hafði afskipti af fjölda ökumanna í umferðareftirliti sínu í sl. viku.  Skráningarnúmer voru klippt af nokkrum bílum vegna vanrækslu á því að færa þá til skoðunar. Þá tók lögreglan 42 ökumenn fyrir of hraðan akstur og hraðamyndavélarnar mynduðu um 400 ökumenn sem óku of hratt.  Um 70 þeirra voru myndaðir við Fiskilæk.