12 Júlí 2016 15:32

Í sl. viku urðu sjö umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi, öll án teljandi meiðsla á fólki.  Árekstur varð niður undir Akranesi milli sendibíls og sjúkrabíls, enginn sjúklingur var í sjúkrabílnum.  Áreksturinn atvikaðist þannig að ökumaður sjúkrabílsins var að beygja út fyrir kyrrstæðan gámabíl þegar bíll kom úr gagnstæðri átt.  Ökutækin voru bæði óökuhæf eftir áreksturinn.

Erlendur ökumaður reyndi ótímabæran framúrakstur í Leirársveitinni og þegar bíll kom á móti honum, þar sem hann var á öfugum vegarhelmingi, þá beygði hann í skyndi útaf og endaði út í grænum móa án þess að velta. Bílaleigubíllinn var hins vegar óökufær eftir loftköstin utan vegarins.

Erlendir ökumenn voru í akstri á Snæfellsnesi á tveimur bílum. Þegar ökumaður fremri bílsins uppgötvaði að hann var á vitlausri leið þá hægði hann ferðina og beygði síðan til vinstri og ætlaði út á næsta afleggjara til að snúa við.  Þegar ökumaður aftari bílsins sá þann fyrir framan hægja ferðina datt honum í hug að fara framúr honum og þannig varð til nokkuð harður árekstur þessara ökutækja sem að skemmdust töluvert.  Annar bíllinn var óökufær en hinn var ökufær eftir lagfæringar á staðnum.

Einn ökumaður var tekinn fyrir ölvun við akstur í umdæmi LVL í sl. viku. Þá tóku lögreglumenn um 40 ökumenn fyrir of hraðan akstur víðs vegar í umdæminu og hraðamyndavélarnar mynduðu 645 ökumenn fyrir of hraðan akstur, þar af um 160 við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls.