26 Janúar 2016 18:14

 

Færri umferðaróhöpp.   Aðeins urðu þrjú minniháttar umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku, öll á Akranesi. Engin meiðsl urðu á fólki og til þess að gera litlar skemmdir á ökutækjum.  Segja má að það sé mjög vel sloppið miðað við flestar undanfarnar vikur en þá hafa óhöppin verið að jafnaði upp undir 10 talsins og mörg hver nokkuð harkaleg.

Íkveikja Akranesi. Eldur var lagður að blaðabunka, innandyra í stigagangi íbúðarhúss á Akranesi um sl. helgi. Ekki er vitað hver þarna var að verki en viðkomandi hefur líklegast þurft lykil til að komast inn í húsið sem talið var vera læst.  Íbúi í húsinu rumskaði við umgang um miðja nótt og heyrði síðan í reykskynjara sem fór í gang.  Rauk hann þá af stað, sá eld í stigaganginum, náði í handslökkvitæki og  tókst að slökkva eldinn með því, áður en að hann náði að breiðast út um húsið. Nokkurt tjón hlaust af þessari íkveikju en þó minna en á horfðist.  Málið er til meðferðar hjá rannsóknardeild Lögreglunnar á Vesturlandi.

Hótanir/heimilisofbeldi.  Lögreglunni var tilkynnt um heimilisofbeldi á Akranesi í vikunni.  Lagði þolandinn fram kæru um líkamsárás í kjölfarið. Málið er í rannsókn.

Fastir ferðamenn.  Tilkynnt var um ítalska ferðamenn sem höfðu fest bílaleigubíl sinn í snjó, eftir að þeir höfðu ekið stuttan spöl frá Húsafelli inn á Kaldadalsveg sem var ófær öllum öðrum en trukkum og stórum jeppum.   Vel búnir jeppamenn náðu að losa ferðamennina og var aðstoðarbeiðnin því afturkölluð en búið var að ræsa björgunarsveitarmenn út frá björgunarsveitinni Ok.

Einn ölvaður við akstur.   Lögreglan hefur haldið uppi töluverðu eftirliti með umferð í kringum þorrablótin sem haldin hafa verið víðs vegar í umdæminu, í þéttbýli jafnt og í strjálbýlinu, það sem af er þorra.  Í stuttu máli má segja að allir ökumenn hafi verið allsgáðir og í góðu lagi þó svo að flestir farþegarnir hafi angað af súrmat, hákarli og jafnvel áfengi..  Einn ökumaður var hins vegar tekinn fyrir meinta ölvun við akstur um miðjan dag í þéttbýli og hann var ekki á leiðinni á eða af neinu þorrablóti.