15 Mars 2016 15:38
Ekki urðu mjög miklar fokskemmdir í umdæmi LVL í óveðrinu sem að gekk yfir landið um sl helgi. Björgunarsveitir voru þó kallaðar út á Akranesi, Borgarnesi og á Snæfellsnesi til aðstoðar íbúum.
Flest tilvikin um fokskemmdir, sem færðar voru til bókar hjá lögreglunni, voru í Stykkishólmi þar sem huga þurfti m.a. að viðbyggingu húss, skjólvegg við íbúðarhús og klæðningu sem var að losna af húsi. Þá fuku þakplötur af íbúðarhúsi á sveitabæ nærri Hvanneyri og eitthvað var um þakplötufok af húsum í Borgarnesi. Engin meiðsl urðu á fólki í veðurhamnum svo vitað sé.
Skemmdir urðu á vegklæðningu í Kolgrafarfirði þar sem klæðningin fauk af og rúllaðist upp í hauga á um 100 metra kafla. Óheppinn ökumaður sem ók inn á svæðið lenti á upprúllaðri vegklæðningunni og fór bíllinn í loftköstum og skemmdist mikið. Ökumaðurinn, sem var einn í bílnum, kenndi eymsla í hálsi og baki og fór sjálfur til læknis til skoðunar. Fimm önnur umferðaróhöpp urðu í umdæminu, þar af ein bílvelta við bæinn Litla kropp í Borgarfirði þar sem erlendir ferðamenn misstu bílaleigubíl sinn útaf veginum í krapa og snjó. Tvennt var í bílnum og var fólkið flutt á sjúkrahús til skoðunar en talið var að meiðsl þeirra væru minniháttar.
Erlendir ferðamenn festu bílaleigubíla sína í snjó í Skorradal og við Arnarstapa á Snæfellsnesi og voru þjónustuaðilar kallaðir út þeim til aðstoðar.
Þá var einn ökumaður var tekinn fyrir ölvun við akstur.