16 Febrúar 2016 09:04

Alls urðu 9 umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku, þar af fjórar bílveltur.  Meiðsl á fólki voru óveruleg og talið að notkun bílbelta hafi bjargað miklu í þessum óhöppum. En töluverðar skemmdir urðu á bílum og margir þeirra alveg óökufærir og voru þeir fluttir á brott með kranabíl.

 

„Stuck in snow“.. Erlendir ferðamenn voru að villast og festa sig, hér og þar í umdæminu eins og undanfarnar vikur.  Lögreglan ræsti út einkaaðila til að aðstoða fólkið en ekki kom til þess að kalla þyrfti út björgunarsveitir, enda þær sparaðar til verðugri verkefna, þar sem enginn var talin í bráðri hættu.  Sem dæmi um staði þar sem útlendingarnir voru í vandræðum má nefna; Laxárdalsveg, Uxahryggi, Jökulhálsleið, við Staðaðarstað, í Reykjadalsá, á Kvíabryggjuvegi og í einu SMS sem að barst til lögreglunnar stóð: „Stuck in snow at Arnarstapi“..

 

Lögreglan á Vesturlandi kom að kynningu á 112 deginum í samvinnu með björgunaraðilum. Áherslan að þessu sinni var meðal annars kynning fyrir yngstu borgurunum á neyðarnúmerinu 112 og sýning á tækjabúnaði viðbragðsaðila. Einnig var áhersla lögð á mikilvægi hvers og eins í þjóðfélaginu til að veita öðrum aðstoð þegar hætta eða erfiðleikar steðja að.

 

Tveir ökumenn voru teknir, grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Nokkrir ökumenn voru sektaðir fyrir rangstöðu og þá voru skráningarnúmer klippt af nokkrum bílum vegna skoðunar- og trygginarmála.