29 Mars 2016 14:59

Mikil umferð var innan, sem og í gegnum umdæmi Lögreglunnar á Vesturlandi um páskana.  Umferðin gekk vel fyrir sig og flestir ökumenn óku skikkanlega og innan hraðamarka   Nokkrir voru þó að flýta sér um of og voru 46 ökumenn teknir af lögreglunni fyrir of hraðan akstur og einn þeirra var gjörsamlega „útúr kortinu“ og mældist á 160 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km/klst.  Hann verður sviptur ökuleyfi um tíma, fær 140 þúsund króna sekt og nokkra punkta í sína ökukferilskrá.   Þá voru hraðamyndavélarnar duglegar með sínar stöðugu mælingar, dag og nótt og skiluðu þær myndum af um eitt hundrað ökuhraðabrotum um páskana.

 

Fjögur umferðaróhöpp urðu í umdæmi LVL um páskana.   Fólksbill fór útaf veginum og valt á Holtavörðuheiði á skírdag.  Fimm voru í bílnum og var einn farþeginn fluttur á sjúkrahús með sjúkrabíl en aðrir sluppu með minniháttar eymsli eftir öryggisbeltin. Mikil hálka var á heiðinni þegar óhappið varð.  Jeppabifreið valt á hliðina á Snæfellsnesvegi vestan við Borgarnes aðfaranótt laugardagsins.  Ökumaðurinn var fluttur til skoðunar á heilsugæslustöðina í Borgarnesi með minniháttar meiðsl en aðrir sem í bílnum voru sluppu án teljandi meiðsla.  Bíllinn var fluttur á brott með kranabíl.

 

Þrír ökumenn voru teknir, grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og lyfja um páskana.

 

Verkefnum fjölgar stöðugt vegna erlendra ferðamanna.  Erlendir ferðamenn voru núna ýmist fastir í snjó eða aurbleytu. Tilvikin voru flest á Snæfellsnesi eða sex talsins, aðrir voru fastir í Botnsdal í Hvalfirði, á Langavatnsvegi í Borgarfirði á Uxahryggjum og á Fellsströnd í Dölum vestur.  Þeim var flestum komið í samband við þjónustuaðila sem fóru þeim til aðstoðar gegn greiðslu en í einu tilvikinu var björgunarsveit kölluð til, þar sem fólk var talið vera í hættu statt.

 

Lögreglunni var á föstudaginn langa tilkynnt um erlenda ferðamenn sem væru komnir út á hálan ís við Langá og það í bókstaflegri merkingu.  Fólkið hafði gengið út á ísinn við sjávarfossinn og voru tveir aðilar með börn í fanginu.  Var fólkinu skipað að koma sér á þurrt og halda sig á göngustígum sem eru með ánni.  Brást fólkið vel við tilmælum lögreglunnar og kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því að þessi framganga gæti verið hættuleg.

 

Tilkynningar bárust til lögreglunnar um að töluverðu af flugeldum hefði verið skotið upp í sumarbústaðalandi í Skorradal um páskana.  Bannað er að skjóta upp flugeldum á þessum tíma og mikil eldhætta getur hlotist af ef flugeldar lenda í þurrum gróðri.