29 Desember 2015 16:32

 

Helstu verkefni sl. viku.

Alls urðu 10 umferðaróhöpp í umdæmi Lögreglunnar á Vesturlandi í sl. viku. Felst þeirra voru minni háttar, tengd vetrarfærð og hálku og öll án teljandi meiðsla á fólki.

Mjólkurbíll með tengivagn, sem var á leið norður, lenti útaf Vesturlandsvegi í Norðurárdal við gatnamót Vestfjarðavegar síðdegis sl. þriðjudag og valt ækið á hliðina.  Ökumaður slapp án meiðsla.  Kvaðst hann hafa beygt útaf til að lenda ekki aftan á fólksbíl sem var kyrrstæður fyrir framan.  Sá hafði ætlað að beygja til vinstri inn Vestfjarðaveg en rétt misst af gatnamótunum og því stöðvað bifreiðina.  Snjóþekja og hálka var á vegi.

Ökumaður sem að ók utaní bifreið sem hann var að mæta á Vesturlandsvegi við Fiskilæk, viðurkenndi að hafa líkast til dottað við aksturinn.  Honum hafi síðan orðið svo mikið um að hann ók áfram í um 10 km áður en hann ætlaði að stoppa og tilkynna um óhappið.  En í því stöðvaði lögreglan akstur hans og tók hann tali.

Rúta með 13 erlenda ferðamenn, á leið frá Ólafsvík til Stykkishólms, fór útaf Snæfellsnesvegi undir Kolgrafarmúla við bæinn Berserkseyri að morgni aðfangadags. Lagðist rútan á hliðina í vegkantinum en engan sakaði. Björgunarsveitirnar Klakkur og Berserkir voru sendar á staðinn til að flytja fólkið til byggða og gekk það vel fyrir sig. Mikil hálka var á veginum og rauk upp með skafrenningskófi öðru hvoru.

Sviptur og nýreyktur á ofsahraða. Lögreglan á Vesturlandi tók ökumann fyrir ofsaakstur á Akrafjallsvegi síðdegis sl mánudag en hann ók á 146 km hraða m/v klst. Lögreglumennirnir fundu greinilega kannabislykt af ökumanninum og viðurkenndi hann að hafa verið að reykja kannabis fyrr um daginn. Einnig kom í ljós að viðkomandi hafði verið sviptur ökuréttindum. Var maðurinn færður á lögreglustöð til skýrslutöku og töku blóðsýnis.

Fjórir ökumenn voru teknir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna í sl. viku og einn þeirra reyndist einnig vera ölvaður.

Jólaórói                                                                                                                                          Nokkuð var um að lögreglan væri kölluð út til að skakka leikinn á heimilum fólks yfir jólin. Um var að ræða fjögur tilvik, allt frá málum sem flokka má sem heimilisófrið upp í átök og ofbeldi þar sem börn voru á heimili.

Þá voru tvö líkamsárásarmál tilkynnt til lögreglu um jólin.  Í öðru þeirra var greinilega um misskilning ölvaðra að ræða í samkvæmi í heimahúsi í Borgarnesi, sem að leiddi til átaka og síðan afskipta lögreglu.  Þá kærði maður annan fyrir að kýla sig í andlitið utan við skemmtistað á Akranesi, vankaðist viðkomandi við höggið og hlaut áverka í andliti.  Árásarmaðurinn flúði af vettvangi en vitað er hver hann er.  Málið er í rannsókn.

Listelskir rótatar.                                                                                                                      Lögreglu var tilkynnt að fólk væri að róta í ruslagámi við verslun í Borgarnesi.  Kom í ljós að um útlendinga var að ræða.  Þeir voru ekki að leita sér að mat að eigin sögn, heldur hlutum sem að þeir gætu notað við listgjörning.  Voru þeir beðnir um að láta af þessari iðju.

Fastir ferðamenn                                                                                                                        Erlendir ferðamenn, hjón með 6 mánaða barn, festu bílaleigubíl sinn á Hítardalsvegi eftir hádegið í dag.  Bóndi á næsta bæ var fenginn til að aðstoða fólkið.