9 Maí 2017 17:21

Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í liðinni viku án þess þó að einhver alvarleg mál hafi komið upp.  Skemmtanahald helgarinnar gekk ágætlega fyrir sig og engin teljanleg útköll á öldurhús bæjarins.

Þann 4. maí sl. Var lögreglu tilkynnt um að skemmdir hafi verið unnar á bifreið sem stóð á Vesturvegi við hús nr. 27.  Leikur grunur á hver þarna var að verki og er málið í rannsókn.

Einn fékk að gista fangageymslur lögreglu um liðna helgi en hann hafði verið í ójafnvægi sökum ölvunar og fékk því gistingu hjá lögreglu.

Í byrjun vikunnar var lögreglu tilkynnt um vinnuslys hjá Marhólmum en þarna stigi runnið undan manni þannig að hann féll í gólfið.  Maðurinn fékk minniháttar skrámur.

Alls liggja fyrir fimm brot vegna umferðarlaga eftir vikuna og er í þremur tilvikum um að ræða ólöglega lagningu ökutækis.  Í einu tilviki var um hraðakstur að ræða en þarna hafði bifreið mælst á 97 km/klst. á Hamarsvegi en þar er hámarkshraði 50 km/klst.   Þá var tilkynnt um að ekið hafi verið utan í bifreið sem lagt var við Vesturveg 4 og að sá sem olli tjóninu hafði ekki fyrir þvi að tilkynna það.  Er talið að tjónið hafi átt sér stað 2. eða 3. maí sl.

Lögreglan vill minna ökumenn og eigendur ökutækja á að skipta yfir á sumardekkin en fljótlega verður farið að sekta þá sem aka um á negldum hjólbörðum.   Rétt er að minna á að sektin fyrir akstur á negldum hjólbörðum er kr. 5.000,- á hvern negldan hjólbarða.

Lögreglan vill koma þeim tilmælum til foreldra og forráðamanna barna að þann 1. maí nk. breytist útivistatími barna og lengist þá heimildi þeirra til að vera á almannafæri um tvær klukkustundir, eins og fram kemur í 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002:

„Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.“

Varðandi aldur þá er miðað við almannaksár.