7 Apríl 2015 13:35

Föstudaginn langa var lögregla kölluð til vegna heimilisofbeldis.  Karlmaður hafði ráðist á sambýliskonu sína sem hlaut af því minni háttar áverka.  Maðurinn var handtekinn og yfirheyrður.  Málið var unnið eftir verklagi sem lögregla hefur sett upp.  Í því felst meðal annars að haldinn er sáttafundur með aðilum máls sem gert var í þessu tilviki.   Að því komu ásamt lögreglu verjandi, réttargæslumaður og fulltrúi félagsmálayfirvalda.  Eftirflylgniaðilar munu að viku liðinni fara yfir stöðuna með sambýlisfólkinu.

Lögreglumenn á Höfn og Selfossi komu að rannsókn á því hvers vegna m/s Haukur missti stjórnhæfni á leið út Hornafjarðarós síðastliðinn miðvikudag.  Varðskip kom með m/s Hauk í Hafnarfjarðarhöfn á laugardag.  Þar var rússneskur skipstjóri m/s Hauks yfirheyrður sem og aðrir í áhöfn.  Talið er að stýri skipsins hafi tekið niðri og fests.

Alvarlegt vélsleðaslys varð síðastliðinn miðvikudag við Klukkuskarð í Bláskógabyggð.  Ógerningur var að koma bifreið að slysstað.  Leitað var til Landhelgisgæslunnar sem sendi þyrlu á staðinn.  Ökumaður vélsleðans féll af sleðanum og varð undir honum.  Hann var fluttur á slysadeild Landspítala.  Þar kom í ljós að hann hafði mjaðmagrindarbrotnað og hlotið innvortis meiðsl.

Par á fimmtugsaldri var kært fyrir að hnupla varningi í Olís á Selfossi á föstudaginn langa.  Málið er í rannsókn.

Um páskahelgina voru 63 ökumenn kærðir í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi.  Eins og áður var meirihlutinn erlendir ferðamenn  á leiðinni milli Víkur og Hafnar.  Einn ökumaður var kærður fyrir ölvun við akstur og einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.