18 Júlí 2017 09:03

Vikan var með rólegra móti hjá lögreglu og engin alvarleg mál sem upp komu.  Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum og engin teljanleg útköll á öldurhús bæjarins.

Tveir þjófnaðir voru tilkynntir til lögreglu í síðustu viku og var í öðru tilvikinu um þjófnað á fimm bölum af einangrunarsteinull og gaskút sem voru fyrir utan gám við Höfðaból.  Ekki er vitað hver eða hverjir þarna voru að verki en lögreglan óskar eftir upplýsingum varðandi hugsanlega gerendur.   Í hinu tilvikinu var um þjófnað á farsíma að ræða.

Undir miðnætti þann 16. júlí sl. var lögreglu tilkynnt um að viðvörunarkerfi hafi farið í gang í húsi við Vesturveg.  Þarna hafði einhver reynt að brjótast inn en horfið frá þegar kerfið fór í gang.

Tvö umferðaróhapp voru tilkynnt lögreglu í vikunni án þess þó að um slys hafi verið að ræða og tjón óverulegt.

Einn ökumaður var stöðvaður í vikunni vegna gruns um ölvun við akstur.  Þá liggja fyrir 6 aðrar kærur vegna brota á umferðarlögum og má þar nefna ólöglega lagningu ökutækja, vanræksla á að nota öryggisbelti í akstri og brot á biðskyldu.