21 Ágúst 2018 15:08

Undir kvöld þann 19. ágúst sl. var lögregla kölluð að húsi hér í bæ en þar hafði heimilishundur af Alaska Malamute tegund ráðist á húsbónda sinn, sem er kona á fertugsaldri, og beit hann í andlit og aðra höndina.   Konan var með töluverða áverka við augu og var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til aðhlynningar.   Að ósk eiganda hundsins verður hundurinn aflífaður.

Síðdegis þann 14. ágúst sl. var lögreglu tilkynnt um rúðubrot í Safnaðarheimili Landakirkju en um var að ræða fjórar rúður sem voru brotnar.  Talið er að rúðurnar hafi verið brotnar daginn áður en ekki er ljóst hver eða hverjir þarna voru að verki.   Þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um þá sem þarna voru að verki eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu.

Í vikunni var tilkynnt um þjófnað á Garmin GPS staðsetningartæki sem stolið var úr bifreið.  Er talið að þjófnaðurinn hafi átt sér stað yfir Þjóðhátíðina en ekki er ljóst hvar bifreiðin var þegar þjófnaðurinn átti sér stað.

Tvö fíkniefnamál komu upp í vikunni og var í báðum tilvikum um að ræða smáræði af kannabisefnum sem voru haldlögð.  Málin teljast að mestu upplýst.

Í vikunni voru tveir skipverjar á smábáti handteknir grunaðir um að vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna við stjórn bátsins.  Málið er í rannsókn og er beðið niðurstöðu blóðrannsóknar.

 

Tvær kærur liggja fyrir vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna en um er að ræða vanrækslu á að hafa öryggisbelti spennt í akstri og akstur gegn einstefnu.