23 Maí 2018 15:37

Tveir menn voru handteknir aðfaranótt Hvítasunnu vegna líkamsárásar á einu af öldurhúsum bæjarins en þeir höfðu verið að slást við hvorn annan.  Þeim var sleppt eftir að víman rann af þeim og búið var að taka af þeim skýrslu.  Málið er í rannsókn en ekki er um alvarlega áverka að ræða.

Tvær ungar konur voru handteknar að morgni 22. maí sl. vegna gruns um ölvun við akstur og nytjastuld á bifreið auk þess sem bifreiðin sem þær voru í valt og endaði á hvolfi utan vega við Klaufina.   Ekki var um alvarleg meiðsl að ræða en önnur þeirra kvartaði yfir eymslum í hálsi eftir slysið.  Þær voru látna lausar eftir skýrslutöku en málið er í rannsókn.

Þá voru þrír aðrir ökumenn stöðvaðir af lögreglu um helgina grunaðir um ölvun við akstur auk þess sem einn af þeim var jafnframt grunaður um akstur undir áhrifum ávana og fíkniefna. Auk þess fannst í fórum hans smáræði af ætluðu kókaíni.

Í síðustu viku var maður stöðvaður við komu Herjólfs og við leit á honum fundust um 20 gr. af kókaíni auk íblöndunarefna.  Málið er í rannsókn.