27 Ágúst 2018 14:39

Tvö fíkniefnamál komu upp í vikunni sem leið og var í báðum tilvikum um svokölluð neyslumál að ræða en lögreglan fór í þrjár húsleitir í liðinni viku vegna rannsóknar fíkniefnamála.

Einn fékk að gista fangageymslur í vikunni sem leið en hann hafði verið í annarlegu ástandi og fékk því gistingu þar til rann af honum víman.

Eitt umferðaróhapp var tilkynnt lögreglu í vikunni en óhappið varð um borð í Herjólfi síðdegis þann 20. ágúst sl.  Þarna hafði bifreið runnið á aðra bifreið, en gleymst hafði að setja bifreiðina í handbremsu.  Ekki varð mikið tjón á ökutækjunum vegna atviksins.

Tvær kærur liggja fyrir vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna og er í öðru tilvikinu um að ræða brot á stöðvunarskyldu en í hinu tilvikinu notkun farsíma í akstri án handfrjáls búnaðar.

Í síðustu viku var Grunnskóli Vestmannaeyja settur og má því búast við að gangandi vegfarendum fjölgi á leið til og frá skóla.   Lögreglan vill því beina því til ökumanna að fara varlega í umferðinni og þá sérstaklega í kringum skólana.  Sérstaklega skal minnt á gangbrautarréttinn og eru ökumenn hvattir til að virða hann.

Fyrsta september nk. breytist útivistatími barna og ungmenna þannig að börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu.