27 Júlí 2015 10:47

Mánudaginn 20. júlí var erlendur ferðamaður aðstoðaður eftir að hafa fengið grjóthnullung í handlegg.    Sjúkraflutningsmenn skoðuðu manninn  sem á vettvangi en hann fór síðan með einkabifreið til frekari skoðunar á heilsugæslustöð.  Maðurinn var á göngu upp hlíð skammt frá Seljalandsfossi þegar grjót losnaði þar sem næsti maður á undan honum var á ferð og féll á hann.

Þann 21. júlí, skammt frá bænum Hjálmsstöðum í Laugardal féll íslenskur hestamaður af baki þegar hesturinn hrekkti.  Hann var fluttur á sjúkrahús en er ekki talinn alvarlega slasaður.

Þann 22. júlí slasaðist ferðamaður á Fimmvörðuhálsi þegar hann féll.  Hann var meiddur á andliti og á höndum en kom sér sjálfur til byggða á Skógum og var fluttur með sjúkrabifreið þaðan á heilsugæslustöðina í Vík.

Þann 23. júlí klemmdist maður á fæti þar sem hann var við vinnu sína á jarðbor við Hellisheiðarvirkjun.   Hann mun hafa lent með fótinn á milli vírs og járnbita með þeim afleiðingum að hann ristarbrotnaði.   Verið var að taka vírinn af geymslutromlu borsins þegar atvikið átti sér stað.

Þann 24. júlí féll kona og meiddist á fæti þar sem hún var að fara yfir girðingu á túni í Flóahreppi.  Hún var flutt á sjúkrahús á Selfossi til skoðunar, jafnvel talin fótbrotin.

Þann 25. júlí slasaðist erlendur ferðamaður þegar hann féll af reiðhjóli sínu á Suðurlandsvegi vestan Víkur.  Eftri skoðun á heilsugæslustöð var hún flutt áfram til frekari aðhlynningar á sjúkrahúsinu á Selfossi en er ekki talinn alvarlega slasaður.

Þann 20. júlí heyrðist neyðarkall á rás 16, neyðarrás skipa.   Engar upplýsingar fylgdu kallinu, einungis tvítekið „Mayday“ .   Neyðarkallið kom inn á sendi sem staðsettur er á Borgarhafnarfjalli í Suðursveit og hóf landhelgisgæslan ásamt lögreglumönnum á Höfn þegar eftirgrenslan og síðan leit að uppruna kallsins.   Bæði þyrla og varðskip tóku þátt í leitinni sem bar engan árangur og svo virðist sem neyðarkallið hafi verið tilefnislaust.  Engin leið er hinsvegar að ákveða slíkt fyrirfram og kall sem þetta verður alltaf tekið alvarlega.   Hafi einhver upplýsingar um uppruna þessa neyðarkalls er sá hinn sami beðinn að koma þeim til lögreglu.

Fjórum sinnum í síðust viku sinntu lögreglumenn á Höfn tollafgreiðslu erlendra skipa sem þangað komu, bæði skútur með ferðamenn og flutningskip.

Einn maður var kærður fyrir að aka ölvaður og fjórir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna.  103 voru kærðir fyrir að aka of hratt.  Einn þeirra reyndist jafnframt vera sviptur ökurétti.    Flestir hraðakstrarnir voru á þjóðvegi 1 í Skaftafellssýslunum.  um 60 % þeirra sem aka of hratt eru erlendir ferðamenn á bílaleigubílum. Hraði þeirra er líka að jafnaði  meiri en íslenskra ökumanna sem lenda í hraðamælunum því meðal sekt erlendu ökumannanna þessa viku er um 43 þúsund krónur en þeirra íslensku um 39 þúsund krónur.    Sem fyrr er rétt að minnast þess að hraðakstur er ein algengasta orsök alvarlegra slysa í umferðinni.   Einn var kærður fyrir að flytja 11 ára barn í skotti skutbifreiðar sinnar.   Skammt er síðan farþegi sem fluttur var með sama hætti kastaðist út úr bifreið og lést þegar bifreiðin valt á Biskupstungnabraut.   Ökumaður þeirrar bifreiðar fékk nýverið dóm fyrir manndráp af gáleysi.   Ökumaður þessarar bifreiðar sleppur hinsvegar vel,  þarf einungis að greiða 15 þúsund króna sekt fyrir brot sitt.

Þann 26. júlí stóðu starfsmenn á Geysi erlendan ferðamann að því að hnupla munum úr versluninni þar.   Maðurinn var handtekinn og yfirheyrður af lögreglu.  Hann lauk síðan málinu með því að gangast undir sektargerð og greiðslu sektar að upphæð 45 þúsund krónur.   Andvirði munanna sem hann stakk á sig var 21 þúsund krónur.  Þeir skiluðu sér til verslunarinnar óskemmdir.