8 Maí 2018 08:42

Tvær líkamsárásir voru kærðar til lögreglu um liðna helgi. Í öðru tilvikinu lenti maður í átökum við annan mann sem endaði með því að sá fyrri sló hinn þannig að hann rotaðist, auk þess veittist hann að tveimur konum sem kvörtuðu yfir eymslum eftir samskipti við manninn.  Árárarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.  Málið er í rannsókn.

Í hinu tilvikinu urðu ósætti á milli manna sem í heimahúsi sem endaði með því annar sló hinn þannig að hann fékk áverka á eftir. Ekki var um alvarlega á verka að ræða en málið er í rannsókn.

Í liðinni viku var lögreglu tilkynnt um að bifreið hefði verði tekin ófrjálsri hendi fyrir utan heimahús. Ekki er vitað hver þarna var að verki en bifreiðin fannst skömmu síðar, óskemmd.

Eitt fíkniefnamál kom upp í vikunni en við húsleit í heimahúsi fannst smáræði af kannabisefnum og viðurkenndi húsráðandi að eiga efnin. Málið telst því að mestu upplýst.   Við sömu húsleit var maður handtekinn sem ekki gaf ekki upp sitt rétta nafn og var hann því vistaður í fangageymslu þar til upplýst var um hver hann var í raun og veru.

Laust eftir hádegi þann 3. maí sl. var lögreglu tilkynnt um vinnuslys hjá Iðunn Seafoods ehf. v/Garðaveg en þarna hafði starfsmaður fest hendi í færibandi. Ekki var um alvarlega áverka að ræða en fingur mun hafa klemmst.

Tvær sektir liggja fyrir vegna brota á umferðarlögum og var í öðru tilvikinu um að ræða notkun á farsíma í akstri án handfrjáls búnaðar og þýðir það sekt upp á kr. 40.000,-. Í hinu tilvikinu var um að ræða ólöglega lagningu ökutækis sem þýðir sekt upp á kr. 20.000,-.

Lögreglan vill koma þeim tilmælum til foreldra og forráðamanna barna að þann 1. maí sl. breytist útivistatími barna og lengist þá heimildi þeirra til að vera á almannafæri um tvær klukkustundir, eins og fram kemur í 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002:

„Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.“

Varðandi aldur þá er miðað við almannaksár.