14 Febrúar 2017 11:01

Lögreglan hafði í nógu að snúast í liðinn viku og um helgina vegna hinna ýmsu mála sem upp komu.

Tvær líkamsárásir voru kærðar til lögreglu eftir skemmtanahald helgarinnar, en báðar áttu þær sér stað aðfaranótt 12. febrúar sl.   Önnur árásin átti sér stað fyrir utan einn af öldurhúsum bæjarins þar sem ráðist var á mann að því er virðist algjörlega að tilefnislausu og þurfti sá að leita læknis vegna áverka sem hann fékk.  Hin árásin átti sér stað inni á einum af veitingastöðum bæjarins en þarna hafði verið ráðist á dyravörð sem var að sinna vinnu sinni.  Ekki var um alvarlega áverka að ræða í því tilfelli.

Í vikunni var lögreglu tilkynnt um að reykur kæmi frá íbúð og hafði nágranni áhyggjur af því að einhver gæti verið í íbúðinni.   Í ljós kom að þarna hafði húsráðandi sofnað út frá eldamennsku og var töluverður reykur í íbúðinni þegar lögregla og slökkvilið kom á staðinn.  Vel gekk að reykræsta íbúðina og varð ekki teljandi tjón á íbúðinni.

Alls liggja fyrri sjö kærur vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna en um er að ræða ólöglega lagningu ökutækja, vanrækslu á notkun öryggisbelta í akstri og þá er ein kæra vegna ástands ökutækis.