13 Júní 2016 10:22

Tvennar bæjarhátíðir voru haldnar í umdæminu um helgina. Á Höfn var Humarhátíðin og Kótilettan á Selfossi.  Þær fóru vel fram og gestir skemmtu sér vel í góðu veðri.

Á Selfossi var tilkynnt um 13 minni háttar þjófnaði. Einn einstaklingur tengdist nokkrum þeirra.  Hann hafði hnuplað varningi í verslunum og stolið munum í íbúðarhúsum.  Lögreglumenn lögðust í talsverða vinnu til að finna þjófinn og uppskáru að lokum, af útsjónarsemi og elju, með því að upplýsa flesta þjófnaðina.

Lögreglumenn á Höfn fengu ábendingu um mann sem væri með í vörslum sínum mikið magn af kannabisefnum. Farið var að heimili mannsins sem heimilaði húsleit.  Engin efni fundust.  Hins vegar fannst hjá honum rafbyssa sem lagt var hald á.  Maðurinn verður kærður fyrir brot á vopnalögum.

Á Selfossi komu upp fimm fíkniefnamál. Fíkniefnahundurinn Vinkill á Litla Hrauni og þjálfari hans voru að störfum fyrir lögreglu og fóru um tjaldsvæði á Selfossi og utan við skemmtistaði.  Í fjórum tilvika merkti Vinkill efni.  Kannabisefni sem bíleigandi hafði falið í púströri bíls síns fór ekki framhjá Vinkli.   Þefvísi hundsins reyndist óskeikul.

Maður féll af vélhjóli á Hvolsvelli seint á laugardagskvöld. Hann fótbrotnaði.  Vélhjólið var án skráninganúmera, ótryggt og fannst ekki á skrá.  Ökumaður er grunaður um ölvun.

Vélsleðaslys varð á Mýrdalsjökli á fimmtudag þar sem maður fótbrotnaði er hann féll af vélsleða.

Keppandi á mótorkrossmóti á Selfossi féll af hjóli sínu í stökki í keppnisbraut. Hann vankaðist og fann til eymsla í öxl.  Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.  Talið var að hann hefði viðbeinsbrotnað.

Í vikunni voru 57 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur. Eins og jafnan áður eru það erlendir ferðamenn sem eru með hæstu hraðatölurnar á Suðurlandsvegi sitt hvoru megin við Kirkjubæjarklaustur.  Þrír ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur og tveir fyrir fíkniefnaakstur.

Umferðardeildin, sem tók til starfa 1. janúar síðastliðinn og var áður hjá Samgöngustofu, hefur víðtækari heimildir en áður til afskipta af ökumönnum. Af þeim 57 hraðakstursmálum sem upp komu í vikunni voru 19 þeirra skráð á hana og einn fíkniefnaakstur.

Við Jökulsárlón höfðu lögreglumenn umferðadeildar afskipti af hópferðabílstjóra sem gat ekki framvísað ökukorti né hópferðarleyfi. Hann og umráðamaður hópbifreiðarinnar verða kærðir fyrir brot.